Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Á sama tíma og ríkisstjórnin segist vilja styðja við nýsköpun og hugvit er staðreyndin sú að við komum afar illa út í alþjóðlegum samanburði. Við erum í 36. sæti af 38 innan OECD þegar kemur að hömlum á erlenda fjárfestingu og meiri hluti frumkvöðla á Íslandi telur Ísland ekki vera ákjósanlegan stað fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Þau fyrirtæki sem skapa störf og stóran hluta útflutningstekna okkar eru í harðri samkeppni við erlend fyrirtæki um athygli og um fjármagn. Nýsköpunarheimurinn er alþjóðlegur og þau búa við þann veruleika að íslenskt regluverk og efnahagsumhverfi eru viðskiptahindrun ofan á allt annað. Hvers vegna geri ég þetta að umtalsefni? Jú, vegna þess að í samráðsgátt stjórnvalda liggur nú frumvarp forsætisráðherra sem er ætlað að tryggja að viðskiptaráðstafanir sem skapa erlendum aðilum áhrif yfir íslenskum rekstraraðilum ógni ekki þjóðaröryggi. Markmiðið er góðra gjalda vert, en umsagnir fulltrúa nýsköpunarsamfélagsins eru þó allar á einn veg, að hér sé gengið allt of langt í auknum takmörkunum á erlenda fjárfestingu. Á þessi varnaðarorð verða stjórnvöld að hlusta. Undir lögin, eins og þau eru lögð fram í frumvarpinu, fellur verulegur fjöldi fyrirtækja sem hefur engin áhrif á þjóðaröryggi, allt sem snertir t.d. gervigreind, þjarkatækni, umhverfisvernd og margt fleira. Ríkisstjórnin leggur í málinu til að stórar fjárfestingar í þessum félögum verði tilkynningarskyldar og háðar samþykki ráðherra og ofan á annað felur málið í sér heimild til ráðherra að leggja gjald á væntanlega fjárfesta. Málið eykur einfaldlega líkurnar á því að erlendir fjárfestar horfi frekar til annarra landa en Íslands, til annarra nýsköpunarfyrirtækja en íslenskra nýsköpunarfyrirtækja. Mundu margir segja að nóg væri nú samt um ástand nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Frumvarpið endurspeglar kannski það sem kalla má meginstef í hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar: (Forseti hringir.) að allt erlent sé vont og beri að varast, sama hvort það er fólk á flótta, (Forseti hringir.) Evrópusamstarf eða, eins og í þessu tilfelli, beinharðir peningar.