139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

takmarkanir á dragnótaveiðum.

[11:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er varla hægt að hæla hv. þingmanni fyrir málefnalegan flutning en ég mun fara yfir þessa ræðu um dragnótaveiðarnar. Þá vil ég fyrst vekja athygli á því að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er vísað til þess að meðal brýnna aðgerða sé að:

„Vernda grunnslóð. Kannaðir verði möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inni á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni veiði“ eins og þar segir orðrétt.

Veiðar með dragnót eru í dag einu togveiðarfærin sem gefin er undanþága til að nota til almennra botnfisksveiða á grunnslóð og þær eru háðar sérstöku leyfi sjávarútvegsráðuneytisins á hverju fiskveiðiári. Leyfin gilda fyrir dragnótaveiðar á ákveðnum veiðisvæðum við Breiðafjörð, Vestfirði, Norðurland, Norðausturland og Austfirði og síðan Suður- og Vesturland. Það svæði er stærst, nær frá Öndverðarnesi í vestri eftir línu um Papey til austurs og vesturs. Á þessu svæði eru síðan tvö sérveiðileyfi, annað í Faxaflóa frá 1. september til 20. desember, einkum ætlað til veiða á skarkola en með aflareglu upp að 20% af þorski og er það gefið út á ákveðinn fjölda báta sem gerðir eru út frá Faxaflóahöfnum. Það sérleyfi er með búsetuforgang til veiða innan Faxaflóa.

Annað sérleyfi er gefið út til kolaveiða fyrir Suðurlandi og heimilar veiðar frá 1. september til 15. maí með 120 millimetra möskva ef veitt er dýpra en á 50 föðmum. Þetta sérleyfi er skilyrt við að skipið sé með heimahöfn og skráð innan þess svæðis og gert þaðan út. Á hinum þremur svæðunum eru einnig skilyrði um heimahöfn, skipið skráð innan svæðis og gert þaðan út. Þar gilda einnig takmarkanir á stærð skipa og 20 metra á Vestfjörðum innan fjarðar en 22 metrar á Norðurlandi og Austfjörðum, einnig innan fjarðar.

Víða er dragnótaveiði bönnuð frá laugardögum til mánudags. Sú undanþáguregla sem veitir dragnótabátum einum heimild til togveiða innan við 3 sjómílur frá strönd sem víða gildir um fiskitroll byggist á reglugerð nr. 788 frá 19. september 2006 og lagaheimild í lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þessar undanþágur frá banni við togveiðum innan flóa og fjarða hafa lengi verið umdeildar og hefur ekki enn þá komist á sátt um togveiðar innan fjarða. Sjómönnum sem veiðar hafa stundað innfjarðar hefur lengi verið ljóst að þar eru víða uppeldissvæði margra fisktegunda, smálúðan og smákolinn leita á grunnsævi sín fyrstu ár og þar sem mikið ferskvatn rennur til sjávar, en uppvaxtarsvæði margra stofna fiskungviðis góð. Það er varla svo þröngt um veiðislóðir á Íslandsmiðum að ástæða sé til sérstakrar undanþágu fyrir togveiðar inn eftir fjörðum og flóum þar sem togveiðar eru óþarfar. Rannsóknir á útbreiðslu yngstu árganga gætu komið að góðum notum við frekari friðun á uppeldisslóðum.

Í fjölriti Hafró nr. 140 segir að ástæða sé til að loka veiðisvæðum fyrir dragnót á hrygningartímanum og þær lokanir mættu vera víðtækari. Í lokaorðum skýrslunnar segir:

„Veiðifærni er mikil þar sem togin smala saman flatfiski og bolfiski með áhrifaríkum hætti. Af þessu leiðir að hægt er að ganga nærri afmörkuðum stofnhlutum á litlum svæðum á tiltölulega skömmum tíma. Skynsamlegt er að loka tilteknum uppeldissvæðum fiskstofna fyrir dragnótaveiðum. Fyrsta skrefið gæti verið að takmarka dragnótaveiðar á innanverðum fjörðum þar sem líklegar uppeldisstöðvar fyrir flatfisk- og bolfisktegundir eru.“

Þær ábendingar sem ég hef vitnað til eru í skýrslu Hrafnkels Eiríkssonar frá 2008, og fleiri starfsmenn Hafró komu að sömu verkefnaáherslum ríkisstjórnarinnar.

Frú forseti. Það eru ekki margir firðir sem eru lokaðir en þó hefur nokkrum innfjörðum og víkum verið lokað á undanförnum árum. Sú aðgerð í sumar að loka tilteknum innfjörðum er fyllilega í samræmi við þessar áætlanir sem hér eru gerðar í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar og njóta mjög víðtæks stuðnings. Eins og hv. þingmaður vék að tel ég fyllilega ástæðu til að huga að frekari takmörkun á innfjörðum hvað varðar togveiðar, bæði á vísindalegum og vistfræðilegum forsendum og svo á mörgum öðrum.