143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ætli það ekki, að hluta til. Ég hef svo sem ekki spáð í það út í hörgul, en mér fannst hv. þingmaður lýsa ágætlega kringumstæðunum.

Við erum að tala um að við búum við mjög viðamikla verðtryggingu, og það sem er einkum bagalegt er verðtrygging húsnæðislána þannig að ákvarðanir sem við tökum hér hækka höfuðstól húsnæðislána og það er það sem ég var að fjalla um í ræðu minni. Ég setti það í samhengi við það að við ætlum núna að fara að verja svolítið miklum peningum úr ríkissjóði í að lækka þennan sama höfuðstól. Þetta lýsir að mínu viti svo mikilli hringavitleysu að við erum endalaust stödd með mikla fjármuni og erum einhvern veginn að kasta þeim út í vindinn á meðan við tökumst ekki á við grundvallarvandamálið, sem er einfaldlega of há verðbólga og þar af leiðandi (Forseti hringir.) eru lánin vísitölutryggð.