135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni var ég að vonast eftir jákvæðum fréttum úr þessum ræðustóli en ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með þetta. Ég bjóst satt að segja við að hæstv. umhverfisráðherra segði okkur að ekki yrði farið fram á frekari undanþágur fyrir Ísland í samningaviðræðunum á Balí. Hæstv. umhverfisráðherra sagði ekkert slíkt. Það segir mér bara það að farið verður fram á frekari undanþágur.

Það er þetta bitbein sem stjórnarflokkarnir hafa tekist á um. Sjálfstæðisflokkurinn hefur viljað, og það hefur hæstv. forsætisráðherra sagt, sækja um áframhaldandi undanþágur fyrir losun hér á Íslandi en hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að hún sé mótfallin því. Hver vann þá í þeim slag? Það liggur í augum uppi, hæstv. forseti, það var Sjálfstæðisflokkurinn, flokkurinn sem vill sækja um áframhaldandi undanþáguheimildir. Þess vegna eru Framsóknarflokkurinn og hv. þm. Guðni Ágústsson svona glaðir. Hann er svona glaður með það að Samfylkingin skuli (Gripið fram í.) hafa étið framsóknargrautinn sinn. Betur að satt væri, hv. þingmaður.

En í alvöru, hæstv. forseti, eru hér engin tíðindi önnur en þau að hæstv. umhverfisráðherra étur ofan í sig þær yfirlýsingar sem hún hefur gefið á prenti, á umhverfisþingi þar sem hún lét frá sér fara áherslur sínar í umhverfismálum og losununarmálum þar sem hún sagði að Ísland ætti að standa í fararbroddi í umhverfismálunum. Hún fékk líka ríkisstjórnina til að undirrita það í orði kveðnu.

Þegar til kastanna kemur og til verkanna á að fara er ríkisstjórnin ekki til í að fylgja henni. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með það að hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir skuli hafa tapað í glímunni við Sjálfstæðisflokkinn og hæstv. forsætisráðherra Geir Haarde.