139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

birting leyniskjala frá bandaríska sendiráðinu.

[15:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég hyggst ræða áform Wikileaks um að birta allt að 250 þús. leyndarskjöl sem farið hafa á milli bandarískra yfirvalda í Washington og sendiráða Bandaríkjamanna víða um heim, m.a. frá sendiráði Bandaríkjamanna við Laufásveg sem við ræddum fyrir 2–3 vikum af því tilefni að þeir voru að koma sér upp njósnasveitum til að fylgjast með nágrönnum sínum í Þingholtunum.

Fram hefur komið að 290 íslensk skjöl eru í þessum bunka. Það er athyglisverð tala miðað við að það eru aðeins 297 dönsk skjöl. Á fréttavef Spiegels kemur fram að fjögur af þessum íslensku skjölum eru leyndarskjöl sem ekki eru ætluð útlendingum, eitt er flokkað sem leyndarskjal, sjö eru trúnaðarmál, ekki ætluð útlendingum, og 47 eru trúnaðarskjöl, 73 eru óflokkuð og 128 eru eingöngu fyrir starfsmenn utanríkisþjónustunnar.

Uppljóstrunin hefur varpað skýru ljósi á starfshætti Bandaríkjastjórnar sem reyndar hefur fordæmt birtingu þeirra og krafist þess að Wikileaks verði lokað. Fram hefur komið að bandarískir stjórnarerindrekar hafa haft samband við stjórnvöld og utanríkisþjónustu víða um heim vegna þess að þeir eru hræddir um að birting skjalanna geti skaðað samstarf viðkomandi ríkja við Bandaríkin.

Af þessu tilefni langar mig til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvert er mat hans á þessum skjölum og tilurð þeirra? Hafa bandarísk stjórnvöld eða sendiráðið við Laufásveg haft samband við hann? Hefur sjálfur utanríkisráðherra Bandaríkjanna, frú Hillary Clinton, (Forseti hringir.) kannski hringt í hann eins og nokkra aðra starfsbræður hans?