149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:07]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Þeir sem komnir eru um eða yfir miðjan aldur kannast við þá innrætingu að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé framúrskarandi, að við séum öfundsverð í samanburði við margar þjóðir, að við eigum gilda sjóði sem nýtist okkur á efri árum en frá 16 ára aldri til sjötugs greiðir hver af launum sínum og safnar í ellimannasjóð. Ég held að segja megi að landinn hafi lengst af unað glaður við að greiða í lífeyrissjóð og hugsað gott til glóðarinnar, talið sig vera framsýnan og fyrirhyggjusaman, sem er nú kannski ekki alltaf aðalsmerki okkar knáu þjóðar.

Það er 21 lífeyrissjóður starfandi í landinu og greiðandi sjóðfélagar voru um síðustu áramót 265.000 talsins. Sjóðunum hefur fækkað því árið 1997 voru þeir 50 talsins. Telur hæstv. ráðherra ástæðu til að þeim fækki enn frekar og að starfsemi þeirra og þjónusta verði þar með samræmd og gerð hagkvæmari? Geta stjórnvöld með einhverjum hætti stuðlað að því og hyggst ráðherra hafa frumkvæði í þá átt?

Frú forseti. Eignir lífeyrissjóðanna voru um 4.000 milljarðar um síðustu áramót og vaxa á hverjum degi. Þetta eru miklar upphæðir og nema sem svarar einni og hálfri landsframleiðslu. Íslenskir lífeyrissjóðir eiga um þriðjung af heildarfjármunum á Íslandi og spár gera ráð fyrir að eignarhlutur þeirra muni aukast á næstu árum. Talið er að hlutur þeirra geti jafnvel farið farið í 35% árið 2030 og jafnvel verið kominn í tæp 40% árið 2060.

Á síðustu árum hefur annað veifið brotist upp á yfirborðið umræða um stöðu og rekstur lífeyrissjóðanna, yfirbyggingu, launakostnað og íburð í starfseminni. Himinháar launagreiðslur til forstjóra sjóðanna hafa komist í hámæli og skekið margan. Þetta kann að hafa haft einhver áhrif á afstöðu almennings til starfsemi lífeyrissjóðanna. Þá hefur borið á undiröldu og eftirspurn eftir meiri áhrifum sjóðseigendanna sjálfra í stjórnum lífeyrissjóða.

70% lífeyrissjóða á Íslandi hafa ekki náð þeirri ávöxtun til langs tíma sem sjóðirnir hafa sett sér sem markmið, eða 3,5% meðalraunávöxtun. Þetta leiðir nýleg greining þeirra Hallgríms Óskarssonar verkfræðings og Gylfa Magnússonar dósents og fyrrum viðskiptaráðherra í ljós. Samkvæmt þeirra gögnum ná aðeins sjö sjóðir þessu marki ef horft er aftur til ársins 1997. Ávöxtunin sé mjög misjöfn. Bestu lífeyrissjóðirnir skili fjórfalt meiri ávöxtun en hinir lökustu.

Hvernig slær þetta hæstv. fjármálaráðherra? Er það mat ráðherra að lífeyrissjóðir á Íslandi geti að óbreyttu staðið undir skuldbindingum sínum í framtíðinni þegar þetta kemur á daginn?

Frú forseti. Árið 2006 áttu lífeyrissjóðir 6% af skráðum hlutabréfum á Íslandi. Tíu árum síðar, árið 2016, er hlutfallið komið í 41%. Meginskýringin er auðvitað gjaldeyrishöftin sem hindruðu erlendar fjárfestingar. Fjárfestingar- og ávöxtunarkostirnir voru takmarkaðir nema innan lands. Sjóðirnir eiga nú yfir helming í mörgum stórum fyrirtækjum í verslun og þjónustu hér heima og bent hefur verið á að stærð þeirra geti búið til samkeppnisvanda á verðbréfa- og hlutabréfamarkaði.

Starfshópur sem skipaður var í fyrra um hlutverk lífeyrissjóða í atvinnulífinu leggur til að vægi erlendra eigna verði aukið, áhættunni dreift sem mest. Þetta hafa sjóðirnar auðvitað valið í nokkrum mæli að afloknum höftum, en er það nóg, nú þegar við erum laus úr höftunum?

Þá leggur hópurinn til að skapaður verði möguleiki til ráðstöfunar á hluta iðgjalda í húsnæðissparnað. Hver er skoðun ráðherra á þessu? Telur ráðherra ástæðu til að hvetja til þátttöku lífeyrissjóða í samfélagsverkefnum, t.d. í þágu aldraðra eða í annarri innviðauppbyggingu? Hefur reynt á viðleitni í þá átt?

Gylfi Magnússon lýsti því yfir fyrir nokkru að það væri heppilegt fyrir okkur að draga úr vexti sjóðsöfnunarkerfisins. Í staðinn ættum við að byggja upp styrkari stoð sem kölluð yrði gegnumstreymiskerfi þar sem hluti iðgjalda rynni jafnharðan til að greiða lífeyri, frekar en til að kaupa verðbréf sem séu svo notuð til að greiða lífeyri einhvern tíma löngu seinna. Tekur ráðherra undir þessi viðhorf, að gegnumstreymiskerfi sé skynsamlegur valkostur fyrir Íslendinga umfram það sem við búum við nú þegar, þ.e. í opinbera kerfinu, ríkisstarfsmenn? Til hvers gæti það leitt um vöxt og viðgang sjóðanna að mati ráðherra?

Virðulegur forseti. Þetta eru áleitin málefni sem skipta hvert mannsbarn á Íslandi miklu. (Forseti hringir.) Ég vona að hæstv. ráðherra fái nægt svigrúm til að svara þeim spurningum sem hér eru lagðar fram.