154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[13:25]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við mjög gott mál. Þær tillögur sem hér eru lagðar til snúa vissulega að sveitarfélögunum og nærsamfélaginu og hvernig þetta snýr að sveitarstjórnarstiginu. Það er vissulega verkefni sveitarfélaganna að veita þjónustu og búa vel að íbúum og þau sækja til þess tekjur, skatttekjur og ýmis önnur gjöld til að standa undir margvíslegri þjónustu. Það er hins vegar svolítill mælikvarði á stjórnarhætti hver forgangsröðun þar er. Hvar hækkar fólk frekar gjöldin eða heldur þeim niðri og fyrir hverja er forgangsraðað þegar kemur að því bæði að veita þjónustu og sækja tekjur til að standa undir henni? Þar skilur svolítið í milli hjá mörgum sveitarstjórnarmönnum.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir miðar að því að jafna stöðu barna til náms því að það er algerlega ljóst að það að fá góðan og hollan mat eru grundvallarmannréttindi, það eru grundvallarmannréttindi að öll börn njóti aðgangs að góðum og hollum mat, óháð efnahag og aðstæðum foreldra og umsjónarfólks. Ekki síður horfum við til gæða máltíðanna og lýðheilsumarkmiða í þeim efnum, að þetta sé mest eins og hægt er matur sem er eldaður frá grunni á stöðunum sjálfum þar sem því verður við komið. Það er ekki góð þróun að það sé verið að fara með það langar leiðir, tilbúnar máltíðir og meira unnar til upphitunar í skólunum. Þetta ætti að vera keppikefli og líka þar sem því verður við komið, ég tala nú ekki um í öflugum matvælahéruðum með fjölbreytta matvælastarfsemi, að geta boðið upp á fjölbreytt matvæli úr heimabyggð. Í minni heimabyggð í Skagafirði höfum við mjög fjölbreytta matvælaframleiðslu, til að mynda kjöt, fisk, grænmeti o.s.frv., og aldeilis tækifærin þar enda lagði það sveitarfélag talsverða áherslu einmitt á þetta, sem gott er, og við höfðum góða samstöðu um það. Ég sat þar í sveitarstjórn í 20 ár áður en ég mætti hér til vinnu og á þeim tíma, ef ég horfi aðeins til baka, talandi um þessa forgangsröðun, þá vildum við og við viljum jú fjölskylduvæn samfélög og geta búið fólki sem bestar aðstæður í gegnum lífið en ekki síst að geta búið vel að börnunum okkar og forgangsraðað í þeirra þágu og barnafjölskyldna. Og hvernig gerum við það? Það er alls konar aðbúnaður í þeim efnum, bæði sú þjónusta sem er í boði og umbúnaður og slíkt en ekki síður hvernig við nálgumst þetta til að mynda í gjaldtökunni.

Við, í því framboði sem ég tók þátt í, VG og óháð í Skagafirði, stóðum fyrir því og í okkar meirihlutasamvinnu við Framsóknarmenn á þeim tíma, að leikskólagjöld urðu þau lægstu á landinu í okkar stjórnartíð. Síðan hafa þau reyndar farið upp úr rjáfrinu. En þetta er hluti af þessu og líka að skólamáltíðirnar í leikskólanum séu gjaldfrjálsar og sömuleiðis í grunnskólanum. Síðan börðumst við fyrir því þar árum saman að leggja upp með það að fella niður kostnað við skólamáltíðir í áföngum, sem sagt bjóða upp á gjaldfríar skólamáltíðir og því yrði komið á í áföngum og tekjur væru með öðrum hætti og kannski gætt að útgjöldum sem voru ekki forgangsefni hjá sveitarfélaginu að jafnvel sólunda í. Þetta voru áherslur og hafa verið áherslur þar hjá okkar fólki að fara þá leið sem hér er lögð til sem ég tel heilladrjúga. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna hér í smáklippu úr bókun við fjárhagsáætlun ársins 2022, sem var síðasti sveitarstjórnarfundur sem ég tók þátt í um þessi efni í því fyrra lífi. Þar segir m.a.:

„Sveitarfélagið má ekki missa fótanna í að efla enn frekar fjölskylduvænt samfélag í Skagafirði og því leggja VG og óháð áherslu á að sveitarfélagið bjóði upp á góða og ódýra þjónustu við börn og barnafólk. Við styðjum því ekki gjaldskrárhækkanir meiri hlutans og Byggðarlistans hvort sem er í leikskólum eða fæðisgjöldum grunn- og leikskóla og að auknum kostnaði sé þannig velt yfir á fjölskyldufólk. Leikskólagjöld í Skagafirði hafa farið frá því undanfarin ár að vera þau lægstu á landinu líkt og þau voru undir forystu VG og óháðra í þáverandi meiri hluta, yfir að vera með þeim hæstu eins og nýleg úttekt ASÍ á leikskólagjöldum greinir frá.“

Þetta var 15. desember 2021. Þetta er eitthvað sem ég talað fyrir lengi og margt fólk sem ég hef unnið með og þess vegna finnst mér mjög ljúft að vera meðflutningsmaður á þessari tillögu hjá hv. þm. Steinunni Þóru. Við þurfum að fylgja þessu eftir og þetta er áfram stefna þar. Núna óttast ég það sem er að gerast, við erum að fá fréttir af því í tengslum við fjárhagsáætlanagerð sveitarfélaganna að þau séu mörg einmitt að hækka þessi gjöld. Það er verið að hækka verulega leikskólagjöld eða fara í einhverja leikfimi með því að bjóða upp á einhverja viðunandi gjaldskrá fyrir jafnvel sex stundir en setja svo okurtaxta á þær stundir sem fólk þarf til að geta sinnt vinnu sinni, það sé verið að hrekja jafnvel annað foreldrið heim úr starfi sem gjarnan því miður endar oft með því að vera konan. Það er ekki góð þróun heldur eins og við heyrum frá Kópavogi, Akureyri, til að mynda, sem voru að stilla fólki upp með þessum hætti.

Þessi gjöld á barnafólk og skólamáltíðirnar — þetta allt helst í hendur. Núna hafa verkalýðsleiðtogar talað sérstaklega um að ríkið þurfi að horfa til alls kyns aðgerða til að liðka fyrir samningum núna í janúar, varðandi gjaldskrárhækkanir sem að ríkinu standa og stofnunum þess og fyrirtækjum. En svo eru það ekki síður sveitarfélögin því að stór hluti af útgjöldum þessa fólks sem er síðan að fara að semja um laun sín og kjör fer einmitt til þess að greiða fyrir þjónustu og annað sem það þarf að sækja hjá sínum sveitarfélögum. Við erum hér að ræða um að fara að fella niður þessi gjöld vegna skólamáltíða, hversu hratt við gerum það er svo úrvinnsluatriði, en því miður er staðan sú að það eru mörg sveitarfélög sem eru bara að fara í algerlega öfuga átt og eru að fara að ráðast í stórfelldar hækkanir á þessum gjöldum núna, gersamlega í andlitið á því fólki sem þarf að komast af og er að fara að semja um kaup sín og kjör í upphafi næsta árs. Það er nöturleg staða. Þess vegna er mjög mikilvægt að fá þetta mál hér fram og með það sé unnið til að undirstrika mikilvægi þess að hér séu allir með og horfi til þess að við þurfum öll að sameinast um að taka þátt í að skapa sem bestar aðstæður þannig að við getum náð hagfelldum samningum og með ráðstöfunum sem koma fólki sem best sem á þarf að halda og hér sé undirstaða fjölskylduvæns samfélags í forgrunni og samfélag jöfnuðar. Ég styð eindregið þessa tillögu og vænti þess að hún fái greiða og góða meðferð nefndar og þings.