154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

69. mál
[14:42]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta svar frá hv. þingmanni. Eins og áður segir þá er vissulega rétt að horfa til þess þegar um störf á vegum ríkisins sem krefjast háskólamenntunar er að ræða að það sé horft til landsbyggðarinnar í þeim efnum, að byggja upp starfsemi í kringum það á þeim stöðum þannig að ekki sé eingöngu verið að moka undir stjórnsýsluna hér í Reykjavík. Þetta tengist auðvitað annarri umræðu sem átti sér stað hér í gær um styrkingu Sjúkrahússins á Akureyri og heimildir þar til að framkvæma hjartaþræðingar, mjög fínt mál. Ég sé ekki betur en að á dagskrá hér á eftir sé einmitt mál sem er af svipuðum toga, að efla og styrkja sjúkrahúsið þar. Við þurfum að hugsa til þess, Íslendingar, að við búum í stóru landi sem við viljum halda í byggð, að það séu ekki allir hlutir hér á þessu svæði, því að eins og áður segir er borgin dýnamísk og hún lifir af þrátt fyrir að slíkar stofnanir verði fluttar en þær geta haft mikið um sitt nærumhverfi að segja. Við sjáum það bara af þeim dæmum þegar stofnanir hafa verið fluttar út á landsbyggðina að það hefur haft áhrif og það skapar líka störf í kringum þær, styrkir áru og ásýnd og skapar fyrirmyndir og annað slíkt. Þannig að ég vænti þess að það verði góð umræða um þetta í nefndinni þegar þar að kemur.