154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri.

83. mál
[15:41]
Horfa

Flm. (Ingibjörg Isaksen) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna. Þetta er búið að vera mjög vönduð og góð umræða varðandi þessa þingsályktunartillögu sem ég lagði fram og mælti fyrir. Mér sýnist í skjótu bragði að ef þeir þingmenn sem vilja setja sig á málið geri það þá séum við með mál sem allir flokkar, fyrir utan einn, eru á, eru samþykkir, sem er gríðarlega jákvætt og ég vona að það styrki málið enn frekar í meðförum þingsins.

Þetta mál var einmitt sett fram til þess m.a. að skapa vandaða umræðu og kemur ekki á óvart að þingmenn Norðausturkjördæmis hafi hér komið í umræðuna. En það er satt sem sagt er hér varðandi möguleikann á að mennta sig í heimabyggð, að það skili því frekar að fólk setjist að og verði þá áfram á staðnum. Þetta er einmitt einn liður í því að við viljum efla enn frekar sérfræðikunnáttu og fá fleira heilbrigðisstarfsfólk til okkar á landsbyggðina. Það er afar mikilvægt.

En það má ekki gleyma því að þó að þetta sé verkefni sem blasir við okkur, að fjölga í heilbrigðisstéttinni, þá er það líka verkefni sem blasir við víða um allan heim. Að því sögðu þá er svo mikilvægt að við skoðum alla möguleika til þess að fjölga tækifærum til menntunar fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Það er líka réttur landsmanna að fá heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag og þetta er einn liður í því að efla þann þátt. Sjúkrahúsið á Akureyri er vel til þess fallið að geta tekið að sér þessi verkefni. Þetta kemur fram í stefnu sjúkrahússins. Það er vilji þarna, það er mannauður og reynsla sem sýnir að það er alveg klárlega tækifæri til þess einmitt að sækja fram á þessum vettvangi.

Það er búið að fara yfir rannsóknir varðandi kæfisvefn. Það er einnig búið að koma á fót þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð um ME-sjúkdóminn, heilbrigðisráðherra gerði það á dögunum, en mér skilst að hluti sjúklinga sem veiktust af Akureyrarveikinni fyrir um fyrir 75 árum síðan sýni frekari tilhneigingu til að þróa með sér ME-sjúkdóminn. Þetta sýnir það bara að það er mikill vilji til þess hjá stjórnendum Sjúkrahússins á Akureyri að taka að sér frekari verkefni. Það má heldur ekki gleyma því að með því að sjúkrahúsið geti tekið að sér viss verkefni þá minnkar það álagið á Landspítalann því að það er þannig að ef þjónustan er ekki til staðar á Sjúkrahúsinu á Akureyri þá fer vandinn ekkert, hann fer þá frekar á Landspítalann. Þetta er því alveg borðleggjandi að mínu mati, að fólk utan af landi, og þá er ég að horfa á norðausturhlutann, þurfi ekki með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn að leggja land undir fót til að sækja sér heilbrigðisþjónustu sem væri með góðu móti hægt að veita í heimabyggð.

Hv. þm. Jakob Frímann Magnússon kom einmitt inn á það áðan að það væri aukinn tilkostnaður við að efla sjúkrahúsið til þess að það yrði háskólasjúkrahús. Það er rétt. En í tillögunni er líka lagt til að horft sé á aðrar leiðir sem hægt er að spara á móti, eins og kostnað Sjúkratrygginga Íslands varðandi ferðakostnað og fleira. Og það er kostnaður sem leggst á kerfið, bara á mismunandi aðila. Í dag er þessi kostnaður að leggjast á fólk sem býr á landsbyggðinni vegna þess að það þarf að kosta ferðina á milli staða. Sjúkratryggingar Íslands eru jú að greiða tvær ferðir á ári núna fyrir þjónustu sem ekki er veitt í heimabyggð en þriðju ferðinni á að bæta við eftir áramót. En þetta er samt sem áður kostnaður ef þú þarft að fara að sækja þjónustuna í auknum mæli, oftar en tvisvar á ári. Það er líka kostnaður sem fylgir því að þú þarft að gista yfir nótt og jafnvel nætur, þú þarft að fá frí frá vinnu og skóla. Þannig að þetta er töluvert sem er í rauninni hægt að spara þarna. Þetta snýst um þjónustuna, að hún sé til staðar fyrir fólkið og lagist að fólkinu, ekki að fólk þurfi að aðlagast þjónustunni og þjónustustiginu. Þetta er því aukið öryggi fyrir fólkið og ég fagna bara umræðunni og þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í henni kærlega fyrir.