137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Úr því sem komið er mundi ég vilja sjá þetta svona en ég get bara ekki treyst því að þannig sé þetta og þannig verði þetta. Ég hef miklar áhyggjur af samkeppnissjónarmiðunum sem þingmaðurinn nefndi hér og ég hef miklar áhyggjur af því að við séum að steypa alla í sama mótið. Ég segi aftur það sem ég sagði áðan: Hvað ef það mót er bara gallað?

Af því að þingmaðurinn talaði um að hann væri að þreyta þingheim — ég hef eflaust þreytt hv. þingmann oftar en einu sinni í vinnu nefndarinnar og ég sé að formaður nefndarinnar glottir við, ég leyfi mér að fullyrða að ég hef örugglega þreytt hana líka. Við getum t.d. ekki afgreitt bankasýslumálið — og nú erum við kannski farin að ræða annað mál — án þess að vera búin að fara ofan í kjölinn á þessari eigendastefnu en það kemur líka við sögu í því máli. Við gagnrýnum það líka að við séum ekki komin með heildarsýn, við sjáum ekki útgönguleiðina, við erum ekki með eigendastefnuna og það verður að horfa á þessa hluti í samhengi.

En ég tek undir varðandi markmiðin, þau eru fín, almenn viðmið í rekstri og hvert og eitt ræður sér svo inni í því. En ég leyfi mér að hafa efasemdir um að það muni endilega takast. Það er fallegt í orði en ég á eftir að sjá það í verki.

Aðeins varðandi tímann en við miðuðum alltaf við dagsetninguna 1. júlí á fyrri stigum frumvarpsins en það náðist ekki. Þess vegna segi ég: Sá bátur er farinn. Við skulum þá hinkra aðeins og ég ætla ekki að endurtaka ræðu mína. Klárum það sem stjórnvöld telja vera nauðsynlegt til björgunar en tökum svo allt hitt í stærra samhengi.