149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:42]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir þessa umræðu um stöðu og framtíð íslensku lífeyrissjóðanna og hæstv. ráðherra sitt innlegg. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu eru lífeyrissjóðirnir í öllu samhengi hagkerfisins mjög stórir og í raun ótrúlegt að hugsa til þess, en hæstv. ráðherra fór hér yfir sögu lífeyrissjóðanna frá stofnun þeirra 1969, hvað við eigum orðið öflugt kerfi eins og fram hefur komið hér. Það er auðvitað eðlilegt í þessu stærðarsamhengi, ein og hálf landsframleiðsla, einn þriðji af heildarfjármunaeign þjóðarinnar, að upp hafi komið hugmyndir um einhvers konar gegnumstreymi, en ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt það og varað við því. Það myndi augljóslega leggja misjafnlega byrðar á kynslóðir. Ég er sammála hv. þm. Óla Birni Kárasyni varðandi það hvernig almannatryggingakerfið tryggir í raun og veru, og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom jafnframt inn á það, ákveðið gegnumstreymi í gegnum kerfið og þetta samspil á milli almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðakerfisins er okkur dýrmætt. Það er mikilvægt. Það breytir hins vegar ekki því að við þurfum að skoða þessi kerfi og hvernig við og lífeyrissjóðirnir geti staðið undir þeim skuldbindingum við þegnanna til framtíðar sem um er að ræða.

Varðandi fjárfestingar í innviðum þá styð ég það séreignarsparnaðarfyrirkomulag sem hefur verið og það er í samræmi við skoðun lífeyrissjóðanna sem kom líka út í nýlegri skýrslu þar að lútandi.