138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:18]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því að sólin komi upp á morgun og að bjartsýni á framtíð okkar og baráttuþrek okkar Íslendinga gerir hana bæði fallegri og bjartari, skærari og yndislegri. Tölum ekki íslenska þjóð niður. Við Íslendingar vorum með halla á fjárlögum upp á 185 milljarða á síðasta ári, 2008, sama og á þessu ári, og það stefnir í 185 milljarða. Það er 100 milljarða vaxtagjaldakostnaður sem stefnir í á næsta ári.

Icesave, jafnblóðugt sem það er, bætir 10–15% ofan á það þrotabú sem þessi ríkisstjórn tók við, þar á meðal Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Af hverju er þá talað eingöngu um Icesave en ekki um þrotabúið upp á 2.300 milljarða? Ég veit það fullvel, frú forseti, að Icesave er illversta skuldin til að sætta sig við, allt að því óásættanleg, en hún bætir 10–15% ofan á. Eigum við ekki að vera bjartsýn, trúa á framtíðina, trúa á það sem við höfum? Við erum ríkasta land í heimi. Eigum við ekki að trúa á okkur, á okkar framtíð, að við getum klárað okkur og vera ekki að einblína á Icesave sem er miklu minna dæmi en þær óreiðuskuldir sem við tókum við? Eigum við líka að vera óreiðumenn í pólitík? Það er búið að lofa úti í heimi og búið að samþykkja á Alþingi Íslendinga, 5. desember 2008, með hjásetu sjálfstæðismanna, að þetta væri leiðin.