138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að vera kominn hér í ræðustól að nýju eftir langa nótt. Ég er búinn að bretta upp ermarnar og við höldum áfram að benda á það sem hv. þm. Birgir Ármannsson talaði um hér með svo einbeittum hætti, að það vantar allan rökstuðning við þetta mál af hálfu stjórnarliða. Þeir hafa ekki komið hér upp og tjáð sig um það. Þeir hafa ekki komið upp og sagt frá því hvers vegna það er í lagi heldur hafa þeir verið, eins og hann sagði, með fliss og jafnvel köpuryrði í garð annarra þingmanna hér. Þvílíkt ráðaleysi er dæmalaust að horfa upp á.

Mig langar að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, vegna þess að hann er nú vel að sér í þessum lagalegu álitaefnum, hvort hann telur ekki alveg einboðið að miðað við allar þær mótsagnir sem komu fram á fundi lögspekinganna fyrir fjárlaganefnd fyrir örfáum dögum, að það sé krafa um að hér verði óskað skriflegra greinargerða um hvort þetta mál stangist á við stjórnarskrána og þá nákvæmlega með hvaða hætti. Það er rétt sem hann bendir á, að það er ekki á valdi einstakra þingmanna að skera úr um það, það bara gengur ekki.

Meira að segja í nótt var verið að fitla svolítið harkalega við stjórnarskrána þegar þing var ekki lengur haldið í heyranda hljóði, eins og kveðið er á um í stjórnarskránni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það geti einfaldlega verið að það sé eins með þingmenn og með marga ráðherra sem hefur heyrst í hér og eins þá embættismenn sem kynntu þetta mál á erlendri grund, að þeir skilji einfaldlega ekki málið og treysti sér ekki til að tala um það vegna þessa. Ég átta mig ekki á því að hvaða leyti og hvers vegna þeir tjá sig ekki um það ef þeir þykjast skilja það. Það er óskiljanlegt.