140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[21:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það mál sem nú er rætt er þannig úr garði gert af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, eins og ágætlega hefur komið hér fram í andsvörum, að efnahags- og viðskiptanefnd er nokkur vorkunn að fá það í hendur. Það verður að taka undir þau orð sem hér hafa fallið að með ólíkindum er hversu þó hefur tekist til við að vinna úr málinu í nefndinni og þau nefndarálit sem liggja fyrir um þennan svokallaða fjársýsluskatt. Nefndarálitin eru þrjú og eru öll meira og minna ágætlega samhljóða í grunninn, bæði í athugasemdum frá 1. og. 2. minni hluta og því áliti sem meiri hlutinn setur fram og tillögum hans til breytinga og ábendinga.

Hvers vegna er nefndinni og stjórnarmeirihlutanum þar vorkunn að fá þetta í hendur? Jú, þetta frumvarp sem stafar frá fjármálaráðherra og ríkisstjórn Íslands, er með þeim ólíkindum gert að það er í öllum meginatriðum í andstöðu við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnar Íslands, svo furðulegt sem það nú er. Frumvarpið sem ríkisstjórn Íslands býr til er í andstöðu við þá stefnu sem hún hefur komið sér saman um að fylgja. Því segir maður að efnahags- og viðskiptanefnd sé nokkur vorkunn að vinna úr þessari þverstæðu.

Hvað á ég við með þessu? Ég nefni dæmi sem lýtur að sparisjóðum landsins. Yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans er að vinna að endurreisn sparisjóðakerfisins. Engu að síður leggur þessi sama ríkisstjórn fram frumvarp sem er beinlínis aðför að sparisjóðakerfinu. Þetta eru ekki orð stjórnarandstöðunnar heldur koma þau beint frá Sambandi íslenskra sparisjóða, forustumönnum þess kerfis sem töldu sig eiga bandamenn í ríkisstjórn Íslands. Nei, svo ber við að ríkisstjórnin sjálf leggur fram frumvarp sem felur í sér nokkuð sem gengur þvert á það sem hún hefur lýst yfir. Það er í sjálfu sér ekkert nýmæli að stjórnin breyti afstöðu sinni frá þeirri boðuðu stefnu eða stjórnarsáttmála sem hún kom sér saman um. Það er hins vegar nýtt að þetta birtist með svo samansúrruðum hætti eins og raun ber vitni um í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.

Annað má nefna sem lýtur að því hvernig hv. efnahags- og viðskiptanefnd tekur til varna fyrir málið í tillögu um fjármögnum á þeim breytingum sem hún gerir á þessu annars laskaða frumvarpi. Til hvaða ráða er gripið? Jú, að ganga gegn markaðri stefnu í fyrirliggjandi löggjöf sem ríkisstjórnin hafði ekki svo lítið fyrir að koma í gegnum þingið, þ.e. að byggja upp Tryggingarsjóð innstæðueigenda. Hér er lögð fram tillaga frá meiri hluta nefndarinnar um að lækka inngreiðslur í þann sama tryggingarsjóð um 1,2 milljarða kr. Þetta gengur þvert á löggjöfina, stefnuna, sem ríkisstjórnin lagði upp með.

Þetta er ekki allt. Nefnt hefur verið í umræðunni að áhrifin af þessum skatti snerti minni fjármálastofnanir sérstaklega. Þannig háttar til að bróðurpartur starfsfólksins sem þar vinnur eru konur. Í athugasemdum Sambands íslenskra sparisjóða, og raunar fleiri gesta nefndarinnar, koma fram verulegar áhyggjur af því að þau áform sem birtast í frumvarpinu muni hafa í för með sér uppsagnir fjölda starfsmanna, sérstaklega hjá minni fjármálastofnunum, og þá sérstaklega sparisjóðunum.

Hvernig rímar þetta við áherslur ríkisstjórnarinnar? Maður kynni að halda að það gerði það mjög vel. Þvert á móti, þetta getur engan veginn fallið að markaðri stefnu ríkisstjórnarinnar um kynjaða hagstjórn, ekki nema sú hin sama ríkisstjórn sé búin að breyta um skilning sinn á innihaldi þeirrar stefnumörkunar og áherslur hennar í kynjaðri hagstjórn gagnist þá sérstaklega karlkyninu. Að mati þeirra sem um þessi mál hafa vélað munu þessi áform nefnilega fremur styrkja karlana í þessari atvinnugrein, fjármálastarfsemi, en að konur muni styrkjast þar í störfum. Það er mat manna á frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Það er mjög miður að ríkisstjórnin geti ekki einu sinni verið sjálfri sér samkvæm þar sem hún hefur þó náð því fram að marka í lög stefnu sína, hún virðist ekki einu sinni fær um að fylgja þeirri línu lengur en örfáar vikur.

Ég vil geta þess líka sérstaklega í tengslum við umræðuna að ekki verður of oft ítrekað að ekkert mat hefur verið lagt á afleiðingarnar af þessari lagasmíð sem ríkisstjórnin fer fram á við Alþingi að það inni af hendi, ekkert mat er lagt á áhrif þess að fullnusta þau áform sem birtast í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hver eru áhrifin af því að leggja þennan skatt á sparisjóðakerfið, kvennastörfin, eins og hér hefur verið nefnt? Ekki er gerð ein einasta tilraun, ekki í nokkurri einustu línu, til að reyna svo mikið sem að nálgast mat á áhrifum þessa. Þvert á móti ýta menn þessu frá sér og vonast til að í þeim darraðardansi sem venjulega ríkir á þingi fyrir jól gleymist þetta eða verði lítið rætt og falli í skuggann af öðrum málum. Svo er ekki og ég hvet hv. efnahags- og viðskiptanefnd, milli umræðna um þetta mál, að gefa þessum tveimur atriðum sérstakan gaum.

Í andsvari við fyrri ræðu mína í þessu máli innti stjórnarþingmaður mig eftir því hvort mér þætti ekki eðlilegt að fjármálastofnanir legðu eitthvað til við að taka á þeim vanda sem við væri að glíma í ríkisfjármálum. Sú spurning átti að vera réttlæting á þessu frumvarpi um nýjan fjársýsluskatt á fjármálastofnanir. Því er til að svara að allar þær fjármálastofnanir sem hér heyra undir, þó svo að sú breyting hafi verið gerð að taka lífeyrissjóðina undan þessum skatti, eru þátttakendur í því að leggja inn í ríkissjóð á grundvelli ýmissa laga sem samþykkt hafa verið um að skattleggja fjármálastofnanir. Stærstu efnin í þeim þætti máls eru sérstakur skattur á fjármálafyrirtækin, gjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda, kostnaður við rekstur Fjármálaeftirlitsins og kostnaður við umboðsmann skuldara o.s.frv.

Eitt lítið dæmi vil ég nefna um útþensluna í þeim efnum. Ég vil nefna sérstaklega að umboðsmaður skuldara er um þessar mundir að stækka við sig í húsnæði og gerir það þannig að hann yfirbýður leigu frá einkaaðilum á markaði. Þetta er ríkisstofnun sem er fjármögnuð af skattfé, sértekjum, og í þessu embætti umboðsmanns skuldara er sú staða uppi að hann er að vaxa, þarf til sín aukið fé og hann yfirbýður leigugreiðslur frá einkaaðilum úti á markaði til að koma sér fyrir. Þetta er í mínum huga óeðlileg þróun og ber að reyna að snúa af þessari braut sem fyrst.