145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:07]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir góða yfirferð og það að hún hafi mögulega náð að fara yfir það sem hún vildi sagt hafa í þessu máli.

Nú hafa stjórnarliðar komið upp, undir liðnum um fundarstjórn forseta, og sagt að þetta sé gott mál, að þetta sé prýðismál og vilja eindregið að við höldum áfram inn í helgina og fram yfir sunnudag helst til að klára það svo að þetta geti að lokum farið í atkvæðagreiðslu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Ef við ættum að reyna að skoða þetta mál einhvern veginn öðruvísi og skoða það út frá því að það sé jákvætt, að þetta sé gott mál, að verið sé að hagræða, getur hv. þingmaður þá séð einhverjar jákvæðar hliðar á því að færa þetta inn í ráðuneytið?

Ég er búin að kynna mér þetta mál tvisvar. Fyrst þegar það var flutt á síðasta þingi þegar ég kom hér inn sem varamaður og aftur núna. Það sem stingur mest í hjarta mitt er að sjá hvernig röksemdafærsla er í greinargerðinni sem dregur aðeins úr trúverðugleika frumvarpsins í heild sinni.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann — svona ef maður setur upp Pollýönnu-gleraugun og lítur á þetta bjartsýnisaugum: Hvað breyttist til hins betra með því að færa þessa stofnun inn í ráðuneytin ef eitthvað? Getur hv. þingmaður fabúlerað með mér til að reyna að komast að jákvæðri niðurstöðu um það hvort og hvernig þetta mundi bæta núverandi fyrirkomulag.