151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

reglugerð um sjúkraþjálfun.

[15:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður höfum áður átt samtal um þessi mál hér. Af því að hv. þingmaður vék orðum sínum sérstaklega að þeim sem hafa fengið Covid-19 og eiga í einhvers konar heilsufarsvanda í kjölfar þess vil ég nefna að ég hef tekið ákvörðun um að ráðstafa sérstökum fjármunum til Reykjalundar til að standa straum af kostnaðarauka vegna endurhæfingar þeirra sem hafa sýkst af Covid-19. Við erum líka þátttakendur í fjölþjóðlegum rannsóknum hvað það varðar.

Hv. þingmaður spyr um reglugerðina. Nú er greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna meðferðar í öllum tilvikum bundin því að tilvísun frá lækni liggi fyrir eða frá sjúkraþjálfara og því er til að svara að við þurfum að hafa ákveðna samfellu í þjónustunni til að tryggja að við séum að byggja þjónustuna upp í samræmi við heilbrigðislög og heilbrigðisstefnu. En það verður samt að halda því til haga að heimilt er að víkja frá því skilyrði sem nefnt er í reglugerðinni vegna bráðameðferðar sem nemur allt að sex skiptum á 12 mánaða tímabili. Við erum þannig líka að gera þá breytingu að heimildarákvæði um bráðameðferðir gildi án formlegrar beiðni en þó eingöngu þegar sjúkraþjálfarar starfa samkvæmt samningi.