Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

raforkumál.

[12:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið þátt í umræðunni. Mig langar að nýta þessa lokaræðu mína til að ræða skipulagsmál og flutningskerfið. Á síðasta þingi var lagt fram frumvarp sem dagaði uppi sem hét frumvarp til laga um breytingar á skipulagslögum. Þar var innifalin heimild til að vinna sérstakt innviðaskipulag sem tekur til svæðis þvert á sveitarfélagamörk til að auðvelda og flýta fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þetta mál dagaði uppi á síðasta þingi. Það var áætlað að það yrði lagt fram samkvæmt þingmálaskrá í janúar en nú erum við að nálgast miðjan febrúar. Málið er endurflutt og ef það væri meining á bak við það sem ríkisstjórnin segir í þessum efnum væri þetta mál auðvitað komið fram og til vinnslu hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Þetta mál er á fyrirsvari hæstv. innviðaráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Ástæða þess að ég nefni þetta er að þetta þarf allt að spila saman og ef við komum okkur ekki á þann stað að geta komið línulögnum áfram með forsvaranlegum hætti þá verðum við í þessum vandræðum um fyrirsjáanlega framtíð. Þess vegna, rétt eins og hæstv. orku- og umhverfismálaráðherra brást hratt við þegar kom fram gagnrýni á það hversu seint var áætlað að leggja rammaáætlun fram, hún er komin hér fram og verður mælt fyrir henni í dag og er það vel, þá verður hæstv. innviðaráðherra að koma fram með þetta frumvarp því að það er lykilatriði í því að komast áfram hvað uppbyggingu flutningskerfisins varðar. Á meðan þetta spil vantar inn í heildarmyndina verður holur hljómur í því að það sé raunverulegur vilji til að koma flutningskerfi raforku til betri vegar heldur en nú er.