Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[17:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður minntist á heimilin í ræðu sinni og mig langaði einmitt að koma inn á það því að ekki hefur verið talað mjög mikið um þann mikilvæga málaflokk í raforkumálum í þessari umræðu. Það er mikilvægasti hlutinn, grundvallarforsendan, að við náum í rafmagn og pössum upp á hita og orku fyrir landsmenn. Það er nokkuð stór hópur sem hefur haft áhyggjur af raforkumálum, í kjölfar orkupakkanna o.s.frv., en í þeim, sérstaklega í þriðja orkupakkanum, er bætt við ákveðnum skyldum á stjórnvöld og líka tækjum til að tryggja orkuöryggi og gæði í orku og sanngirni í verði til heimila og, ef stjórnvöld velja, líka til lítilla fyrirtækja, ekki til stóriðjunnar.

Mér finnst þetta mjög áhugavert í samhengi þessarar þingsályktunartillögu því að ég hef ekki fengið að sjá hvernig stjórnvöld hyggjast tryggja orkuöryggi heimila og lítilla fyrirtækja. Í þessari tillögu segir: Jú, við ætlum að setja fullt af fleiri virkjunarkostum til orkunýtingar og það verður til fullt af virkjunum sem hægt er að virkja. En í hvað? Hvernig er hægt að tryggja heimilum örugga orku úti um allt land í miklum gæðum, sem sagt loftslagslega séð, ekki með upprunavottorð sem kjarnorka er á bak við o.s.frv. og á sanngjörnu verði? Það er grundvöllur þessarar tillögu sem við þurfum að huga að, hvernig við getum svarað þessu. Ég hlakka til þeirrar umræðu.