Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[14:10]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka fyrir góða umræðu. Þó að það hafi komið fram í orðaskiptum og í umræðunni yfir höfuð að þetta væri ekki veiðigjaldamálið þá hafa komið fram, í máli þingmanna, ýmis sjónarmið sem lúta að fyrirkomulaginu sem við erum með hér og ekki síst í lok umræðunnar af hálfu hv. þm. Sigmars Guðmundssonar. Ég verð að segja að mér finnst það ánægjuefni hversu mikill áhugi er á þessum málaflokki og mér finnst það skipta miklu máli að fólk leggur sig fram um að taka þátt í umræðunni. Þó að þessi angi sé að sumu leyti dálítið tæknilegur þá vekur hann okkur til umhugsunar um málaflokkinn í heild.

Það er rétt, sem kom fram í umræðunni, að þetta snýst um það að koma í veg fyrir tekjutap ríkissjóðs á árinu 2023 upp á 2,5 milljarða. Það er gert með tilteknum hætti og ekki útséð um það hvað gerist síðan í framhaldinu vegna þess hversu margar breytur eru á ferðinni í þessum málaflokki.

Ég vil hvetja nefndina, og ég held að ég þurfi raunar ekki að gera það miðað við umræðurnar hér, til þess að fjalla ítarlega og vel um málið. Hér hafa komið fram ýmsar spurningar, sem ég tel t.d. að Skatturinn geti svarað mjög vel, sem lúta að samspili afskrifta og veiðigjalda og túlkun laga varðandi afskriftir og fyrningar. Það er eitthvað sem ég held að sé mikilvægt að Skatturinn fái tækifæri til að svara gagnvart nefndinni. Það sama gildir um að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi komi til nefndarinnar með sína sýn á viðfangsefnið.

Ég hef þó ekki orðið neins annars áskynja í þessari umræðu en að þeirri ítarlegu vinnu sem stendur yfir á vegum matvælaráðuneytisins, með aðkomu fjölmargra aðila, sem er ólík þeirri vinnu sem áður hefur verið ráðist í., fylgi góðar óskir og ég met það mjög mikils. Ég skil það þegar fólki finnst það þurfa að tala eitthvað niður, bara af því að mál kemur frá öðrum stjórnarflokki, en gegnumsneitt þá held ég að við séum sammála um að þessi umræða sé einfaldlega of mikilvæg til að falla í slíka freistni. Ég þakka fyrir góðar óskir gagnvart þeirri vinnu. Ég hef líka fundið fyrir því í umræðunni hér að við erum öll sammála um það grundvallaratriði að þegar vel árar í sjávarútvegi þá eigi greinin að greiða meira í sameiginlega sjóði. Það er okkar sameiginlegi skilningur og verður enda hluti af þeirri vinnu sem fram undan er.

Ég gæti fjallað lengi um mikilvægi þess að byggja upp hafrannsóknir. Ég gæti talað um umhverfisþáttinn, um tækifæri í sjávarútvegi, um fullvinnslu og fullnýtingu og margt annað sem lýtur að þessari öflugu lykilgrein í okkar samfélagi, en hér er um að ræða tiltekið mál, forseti, og vil árétta þakkir mínar til þingsins, að taka því vel að veita málinu brautargengi með svona óvenjulegum hætti.