138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir ágæta ræðu og það er miður að hún hafi rétt verið að komast á flug þegar ræðutíminn var búinn en við fáum væntanlega að njóta seinni hlutans af þeim málum sem hún ætlaði að tala um síðar í kvöld.

Hv. þingmaður hefur innsýn í lögfræðina sem ég hef að takmörkuðu leyti. Ég hef meiri reynslu af því að búa til lög en túlka þau, en mig langar að spyrja hv. þingmann um þá ákvörðun sem var tekin á sínum tíma um að hafa þessa samninga í einkaréttarfyrirkomulagi, þ.e. að þetta væru samningar íslenska innstæðutryggingarsjóðsins við Breta og Hollendinga. Mér sýnist að það hafi verið gríðarlega mikil mistök. Það var einhver ábati af því en mistökin yfirgnæfa þann ábata margfalt. Af hverju segi ég það? Ég segi það vegna þess að inn í samningana rötuðu alls konar ákvæði sem eru eðlileg í einkaréttarsamningum, eins og t.d. ákvæði um að ef ríki eða stofnanir ríkisins standa ekki fullkomlega í skilum getur verið hægt að gjaldfella samningana og annað slíkt, auk þess sem þetta virðist vera komið í hrærigraut núna. Nú eru komnir efnahagslegir fyrirvarar sem voru við ríkisábyrgð inni í einkaréttarsamningi og annað slíkt. Er þetta ekki orðið hálfruglingslegt út frá út frá því sjónarmiði að hafa þetta sem skýrast? Það er fyrri spurningin. Í öðru lagi: Hvert er álit hv. þingmanns á að þetta hafi verið sett inn í einkaréttarsamning (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að samið hafi verið um þetta á milli þjóðríkjanna á pólitískum nótum.