138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Mig langaði til að spyrja hana út í eitt atriði vegna þess að nú hafa stjórnarliðar fengið áhuga á málinu upp á nýtt og þeir eru farnir að koma í þingsal en sitja og hlusta. En svo gerðist sú undantekning að tveir þeirra þorðu í andsvar og ég bíð eftir því að hæstv. utanríkisráðherra sýni okkur í stjórnarandstöðunni þá virðingu að tjá sig efnislega um málið fyrst hann er kominn til að hlýða á mál okkar. Þeir hafa miklar áhyggjur af lánshæfismatinu og því að Íslendingar muni hrapa ef þeir samþykkja ekki Icesave. En nú er það svo að matsfyrirtækin gerðu hrikaleg mistök í kjölfar bankahrunsins þegar þeir settu íslensku bankana í hæsta gæðaflokk, þrefalt A. — Mætti ég biðja um hljóð, hæstv. forseti, frá hæstv. utanríkisráðherra.

(Forseti (ÞBack): Hljóð í salnum.)

Virðulegi forseti. Lánshæfismat fyrirtækja og þjóða og einstaklinga líka fer algerlega eftir því hversu skuldsettir þeir aðilar eru. Því skuldsettari sem þeir eru eðlilega þeim mun lægra eru þeir metnir, eðlilega. En nú er það fullyrt af hálfu stjórnarmeirihlutans að við verðum að skuldsetja okkur tugi ára fram í tímann, skuldsetja komandi kynslóðir, börnin okkar, og þá muni allt lagast. Mig langar til að beina þeirri spurningu að hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur hvort hún sé ekki sammála mér.