153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

hækkun stýrivaxta.

[11:10]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Auðvitað er það svo, eins og hv. þingmaður bendir á, að Ísland er lítið hagkerfi, gjaldmiðill okkar er lítill. Við sjáum meiri sveiflur í slíku hagkerfi en stærri hagkerfum. Það getur verið kostur og það getur verið galli og það er mjög eðlilegt að við ræðum það. En við skulum líka átta okkur á því að ef við ætlum að ræða um gjaldmiðil og peningastefnu þá þurfum við að ræða stóra samhengið. Við höfum átt ágæta umræðu hér á þingi. Í þessum málum eru í raun og veru tveir valkostir. Það er að styrkja þau tæki sem við höfum til að stýra hinu íslenska hagkerfi eins og við höfum gert, til að mynda með því að veita Seðlabankanum auknar heimildir til inngripa á húsnæðismarkaði sem er einn helsti valdur að verðbólgunni. Vil ég þá minna á reglurnar um veðsetningar- og greiðslubyrðarhlutfall sem byggja á tiltölulega nýlegri löggjöf og var einmitt beitt af Seðlabankanum vegna verðbólgu. Hinn valkosturinn sem er vænlegur, ef við miðum við þá vinnu sem hefur verið unnin, er aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru og það felur auðvitað miklu meira í sér en eingöngu breytingar á peningastefnunni. Það er bara miklu stærra mál en svo.

Hvað varðar þessa vaxtahækkun almennt vil ég segja að auðvitað er Seðlabankinn sjálfstæður í störfum sínum en vegna þess að staða kjaraviðræðna er viðkvæm þá sáum við að þessi ákvörðun hafði mikil áhrif inn í kjaraviðræður sem stóðu yfir í Karphúsinu í gær. Af þeim sökum óskaði ég eftir fundi með aðilum vinnumarkaðarins í morgun þar sem við fórum yfir stöðuna því að ég tel að það væri mikill hagur okkar allra, almennings í þessu landi, ef unnt væri að halda frið á vinnumarkaði. Í þeim efnum hafa stjórnvöld lýst sig reiðubúin til samtals, til þess að leggja sitt af mörkum til að greiða fyrir mögulegum kjarasamningum. Við munum fylgjast mjög grannt með stöðunni í dag en ég ítreka það sem ég sagði hér, að ef við værum að ræða peningastefnu almennt (Forseti hringir.) þá þyrftum við að ræða það í þessu stóra samhengi. Ég er algerlega tilbúin til þess samtals.