138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hef áður komið hér til að ræða áhyggjurnar sem ég hef af þeim iðnfyrirtækjum sem bera hvað þyngsta skattbyrði miðað við ný frumvörp ríkisstjórnarinnar. Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt harðlega skattstefnu stjórnvalda sem lýtur að skattlagningu matvæla og hækkun á virðisaukaskatti af tilteknum matvælum og álagningu vörugjalda. Ég beindi fyrirspurn varðandi þetta til hæstv. fjármálaráðherra í liðinni viku sem lýsti því yfir að þetta væru þær skattahækkanir sem hann ætti síst erfitt með að verja í þessum skattbreytingum.

Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. Magnúsar Orra Schrams hvort hann sé sammála þessari túlkun ráðherrans eða hvort hann sé sammála mér og hafi áhyggjur af stöðu þessara fyrirtækja. En afleiðingarnar miðað við þær yfirlýsingar sem komið hafa frá forsvarsmönnum fyrirtækjanna og Samtökum iðnaðarins eru þær að það þarf að segja upp fólki og lækka laun hjá þeim sem halda vinnunni sinni.

Það hefur verið talsverð umræða um þetta í fjölmiðlum og Samtök iðnaðarins hafa vakið athygli á þessu með bréfi til okkar þingmanna og jafnframt með auglýsingum í blöðum. Þá hafa Samtök iðnaðarins lagt fram ítarlegar tillögur um aðrar aðferðir við skattlagningu matvæla. Í gær var fjallað um það í kvöldfréttum að þessar hækkanir munu skattleggja ýmsar vörur út af markaði sem munu þá hafa áhrif á framleiðslu og fjölda starfa hjá þessum fyrirtækjum. Það er mikilvægt að við ræðum þetta mál vegna þess að við eigum að róa að því öllum árum að fjölga störfum hér á landi. En ef skattstefna ríkisstjórnarinnar hefur það í för með sér að fyrirtækin í landinu eiga einskis annars kost en að segja upp fólki, telur hv. þm. Magnús Orri Schram að við séum þá á réttri leið eða telur hann kannski að endurskoða þurfi þessi áform?