140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og gott yfirlit yfir stöðuna í Evrópumálum, en hv. þingmaður náði að setja hlutina í gott samhengi og setti þá í það samhengi sem honum er hugleikið.

Mig langar aðeins til að víkka þetta út fyrir Evrópu og spyrja þingmanninn út í eitt atriði. Nú er ljóst að fleiri og fleiri þjóðþing setja spurningarmerki við þessa áætlun ESB og það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætli að setja 200 milljarða dollara í þennan björgunarpakka hjá Evrópusambandinu. Það framlag verður fjármagnað af stofnframlagi og öðrum framlögum í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þannig að þetta sem við erum að ræða hér gæti endað í björgunarpakkanum hjá Evrópu.

Fleiri og fleiri þjóðþing spyrja þeirrar spurningar hvort þetta sé rétta leiðin, hvort það sé réttlætanlegt gagnvart skattborgurum og þegnum landa sinna að taka þessa áhættu. Meðal annars hafa vestræn lönd sagt að nýmarkaðsríkin hafi ekki borgað neitt af sínu stofnframlagi, Bandaríkjamenn eru búnir að leggja fram frumvarp um að stöðva þetta, þýski seðlabankinn varar við þessu, þýski fjármálaráðherrann varar við þessu, Bretarnir, Tékkarnir o.s.frv.

Væri ekki svolítið skondin staða ef við stæðum uppi með það að eina ríkisstjórn heimsins sem hefði borgað inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væri ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur?