151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[14:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara að nefna hvað ég er þakklátur fyrir það að búa í landi þar sem af átta flokkum er einungis einn flokkur sem tekur það að sér að berjast fyrir þeim fráleita málstað sem Miðflokkurinn berst fyrir hér í pontu. Það sést auðvitað einn og einn þingmaður í öðrum flokki sem ýmist greiðir ekki atkvæði með eða jafnvel á móti. Það er eins og það er í stórum flokkum, sér í lagi hjá flokkum með mikla arfleifð og íhaldssögu. En þó er restin af Alþingi sammála um að þetta sé framfaraskref.

Í upphafi þessarar umræðu tók hv. 8. þm. Suðurk., Karl Gauti Hjaltason, til máls og spurði, eftir mjög skrýtinn punkt sinn: Hvað næst? Ég skal svara, virðulegur forseti. Næsta skrefið er næst. Næsta framfaraskrefið er næst. Ég vona að Miðflokkurinn bíði bara eftir því og hugsi sinn gang í millitíðinni. Í sögunni er það þannig að sum sjónarmið tapa og önnur sigra. Þetta sjónarmið er að sigra og þeirra mun tapa, enn og aftur.