151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

staðfesting samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2021 .

363. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Við í utanríkismálanefnd fjölluðum um þessa tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu fyrir árið 2021. Við fengum á fund okkar Veturliða Þór Stefánsson frá utanríkisráðuneyti og Þorstein Sigurðsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Með tillögunni er verið að leita heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2021 sem gengið var frá á þessu ári. Samningurinn kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árinu 2021. Hann gerir ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2021.

Samkvæmt samningnum er íslenskum skipum heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl innan færeyskrar lögsögu á árinu 2021.

Samningurinn tók gildi til bráðabirgða 23. nóvember 2020 og mun núna öðlast endanlegt gildi.

Við í nefndinni fögnuðum því og ræddum það aðeins að aðilar hyggist halda áfram vinnu við að breyta fyrirkomulagi samningaviðræðna um gagnkvæma fiskveiðikvóta þannig að gerður verði rammasamningur til lengri tíma. Þannig verður hægt að breyta ýmsum þáttum samningsins, svo sem kvóta og aðgangi, miðað við ástand stofna og aðstæður hverju sinni.

Ég ætla að láta vera að ræða persónuleg sjónarmið í þessu varðandi samninga við Færeyinga sem geta verið mjög erfiðir við að etja þegar kemur að samningum um veiðar, hvort sem þær eru innan íslenskrar eða færeyskrar lögsögu. Mér hefur oft og tíðum ekki alveg þótt vera sá frændskapur og vinarþel sem ætti að vera á milli aðila. Þetta er hins vegar ekki umræðuefni hér hjá mér að sinni enda er ég framsögumaður nefndarálitsins.

Við í nefndinni leggjum til að þessi tillaga verði samþykkt. Hv. þm. Smári McCarthy sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og styður álitið. Aðrir hv. þingmenn rita undir þetta álit sem við mælum með að verði samþykkt.