151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar.

31. mál
[21:38]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður hefur komið auga á að við flutningsmenn vorum að reyna að búa þannig um hnútana að þetta væri skýrt og að mörgu leyti svipuð skilyrði og nýsköpunarverkefni þurfa að uppfylla. En ef við horfum á þetta sem einhverja línu af verkefnum sem þróa atvinnulífið þá er hér ákveðin atvinnustarfsemi sem heldur áfram í sama farvegi og hún hefur verið. Á þessum enda er eitthvað nýtt sem verið er að gera. Það byggir á nýrri tækni og nýjum rannsóknum og allt það. En þá er einhvers staðar þar á milli það sem höfum stundum kallað þróun, atvinnuþróun. Nýsköpunarverkefni fara oft í þann fasa eftir fyrsta nýsköpunarhlutann, ef við getum sagt sem svo. Þá er oft erfitt að nálgast fjármagn eins og t.d. í landshlutunum. Í ferðaþjónustunni er stundum kvartað ef það er t.d. búið að koma á einhverri tiltekinni afþreyingu á Vesturlandi þá sé ekki hægt að fá styrk fyrir því sama á Austurlandi, þó að það sé mjög mikilvægt að það sé afþreying bæði á Austurlandi og Vesturlandi. Og auðvitað líka á Norðurlandi og Suðurlandi. Þess vegna er miklu minni nýnæmiskrafa í tillögunni en hjá nýsköpunarsjóðum. Að því leyti er útfærslan á þessari nýnæmiskröfu mun rýmri en ef um nýsköpunarverkefnin væri að ræða. Og auðvitað er líka gert ráð fyrir að útlagður kostnaður úr ríkissjóði vegna þessa sé mun minni með ábyrgðunum.