138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við erum að ræða ríkisábyrgð vegna svokallaðra Icesave-reikninga, reikninga sem stofnað var til af hálfu áhættusækinna bankamanna í Landsbankanum gamla, sem gerir það að verkum að hér fer allt á annan endann. Ekki nóg að þrír íslenskir bankar hafi hrunið haustið 2008 heldur skellur þetta sömuleiðis á íslenskri þjóð.

Alþingi tókst á sumarþingi, þegar frumvarp fjármálaráðherra varðandi ríkisábyrgð var lagt fram, að breyta því frumvarpi í þá veru að Alþingi Íslendinga teldi að íslensk þjóð og íslenska ríkið gæti borið þær byrðar sem það frumvarp og þau lög lögðu til. Þeir fyrirvarar, frú forseti, voru bæði efnahagslegir og lagalegir og þeir gengu út á það að ef hagvöxtur á Íslandi yrði í kringum 6% gætum við greitt vexti og afborganir — ef hagvöxtur yrði 6%. Alþingi samþykkti slíkt 28. ágúst.

Frú forseti. Nú eru efnahagslegu fyrirvararnir ekki virkir í sérstökum lögum frá Alþingi heldur hafa þeir verið settir inn í viðaukasamninginn og þeim breytt í þá veru að hvernig svo sem hagvöxtur verður á Íslandi munum við alltaf greiða vexti. Íslenska ríkið mun alltaf greiða vexti vegna þessara Icesave-reikninga hvernig svo sem efnahagslegt ástand þjóðarinnar er eða verður. Þess vegna, frú forseti, segi ég að það frumvarp sem hér liggur fyrir, og hæstv. fjármálaráðherra óskar eftir við Alþingi að verði að lögum, er ekki hægt að binda sem lög.

Þar að auki, í lögum sem enn eru í gildi frá 28. ágúst, var ríkisábyrgðin sett til 2024. Því hefur líka verið kippt út, frú forseti. Nú er ríkisábyrgðin óendanleg í tíma — óendanleg í tíma. Þar að auki, sem er hálfu verra, getur íslenska ríkið ekki tryggt að ríkisábyrgð falli niður jafnvel þó að þar til bærir úrskurðaraðilar kæmust að slíkri niðurstöðu. Við erum búin að semja þannig af okkur að þrátt fyrir að þar til bærir úrskurðaraðilar kæmust að þeirri niðurstöðu að ríkisábyrgðin ætti ekki að vera gætum við ekki komist fram hjá henni. Það er ekki forsvaranlegt, frú forseti. Og að niðurstaða dómstóla breyti engu í þá veru verði þetta frumvarp að veruleika — nema með samþykki Breta og Hollendinga. Þetta er, frú forseti, ekki forsvaranlegt fyrir íslenska þjóð. Það er ekki forsvaranlegt fyrir Alþingi Íslendinga að samþykkja slíkt frumvarp og gera það að lögum.

Ég vil ítreka í þessu sambandi, frú forseti, að 4. gr. frumvarpsins sem hér er lagt fyrir er eiginlega einhver sú mesta niðurlæging sem ég held að þjóðin standi frammi fyrir. Þar stendur, með leyfi frú forseta, og ég sendi þá beiðni til hv. fjárlaganefndar að hún afnemi það orð sem stendur í frumvarpinu en þar stendur, með leyfi forseta:

„Til að fylgjast með og meta forsendur fyrir endurskoðun á lánasamningunum, sbr. endurskoðunarákvæði þeirra, skal ríkisstjórnin gera ráðstafanir til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri í síðasta lagi fyrir 5. júní 2015 […] úttekt á stöðu þjóðarbúsins, einkum með tilliti til skuldastöðu og skuldaþols.“

Frú forseti. Ég get fallist á að fyrir 5. júní 2015 eigi að gera úttekt á stöðu þjóðarbúsins og það megi binda í lög. En, frú forseti, að í lögum eða frumvarpi til laga sem Alþingi síðan samþykkir standi: „Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn“ hugnast mér ekki. Ég beini því þeim tilmælum til hv. fjárlaganefndar að þessari grein verði breytt og orðið „Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn“ tekið út.

Frú forseti. Ég hef líka áhyggjur af því að í frumvarpi þessu finnst mér að verið sé að ganga á þrískiptingu valdsins eins og það kemur og skráð er í stjórnarskrá í framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Ég get ekki fallist á að Alþingi Íslendinga geti samþykkt frumvarp til laga sem segir íslenskum dómstólum, jafnt héraðsdómstiginu sem og Hæstarétti Íslands, að dómsniðurstöður þeirra verði að fara eftir því sem annað dómsvald úti í Evrópu, EFTA-dómstóllinn, hefur gefið ráðgefandi niðurstöður um. Ég held að löggjafinn geti ekki undir nokkrum kringumstæðum gengið þannig inn í dómsvaldið. Þessi þrjú stig eru óháð hvert öðru. Þannig á það að vera og löggjafarþingið getur ekki hlutast þannig til um við dómsvaldið og sagt því fyrir verkum.

Frú forseti. Íslensk þjóð stendur frammi fyrir fordæmislausri stöðu sem varð í bankahruninu 2008. Menn geta endalaust talað um fortíðina, hverjum hvað er að kenna. Ég hef sagt það sem hægri maður og kjósandi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á þingi að sá flokkur ber sína ábyrgð en það eru fleiri sem bera ábyrgð og núverandi ríkisstjórn ber alla ábyrgð á því frumvarpi sem liggur fyrir. Hún ber alla ábyrgð á þeim samningum sem liggja hér fyrir og hún fer fram á við Alþingi Íslendinga að það samþykki. Menn geta ekki kastað þeirri ábyrgð af sér yfir á aðra. Við þurfum að gera upp fortíðina. Það verður okkur erfitt og örugglega okkur sem stöndum til hægri í stjórnmálunum og höfum verið hér í forustu í tæp 18 ár, það verður okkur án efa erfitt en við munum gera upp þá fortíð og taka því sem fram kemur væntanlega í þeirri skýrslu sem rannsóknarnefnd Alþingis mun skila innan tíðar. En ábyrgðina sem ríkisstjórn Íslands stendur nú frammi fyrir verður hún að axla og hún getur ekki undir nokkrum kringumstæðum rætt það hérna dag frá degi að verkefnið sé svo erfitt og mikilvægt og þess vegna þurfi að gera þetta og hitt.

Frú forseti. Þeir fyrirvarar sem settir voru í ágúst eru horfnir. Ríkisábyrgðin er óendanleg. Ríkisstjórn Íslands og að því er virðist stjórnarmeirihlutinn ætla sér að samþykkja þetta frumvarp og þá segi ég: Ég játa mig sigraða hvað það varðar. Ég mun greiða atkvæði gegn þessum Icesave-samningum, þessari ríkisábyrgð gagnvart Icesave-samningunum. Mér sýnist og þannig hefur verið talað að við stjórnarandstæðingar sem tölum hér séum í málþófi til þess að tefja málið. Ég ætla mér ekki að tala oftar í málinu. Mín skoðun er tær og skýr, ég mun ekki greiða þessu frumvarpi óbreyttu atkvæði mitt. Ábyrgðin er alfarið ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna og það er þeirra þá að segja já og standa að þeirri ábyrgð sem þeir bera með því frumvarpi til laga sem er til umræðu.