151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[16:04]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla í örstuttu máli um þetta mál sem hér hefur verið rakið af samþingmönnum mínum í nefndinni. Ég skrifa undir nefndarálitið í þessu máli. Ég vil samt aðeins taka undir það sem hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir sagði rétt áðan um að það vanti aukinn jöfnuð í þetta kerfi.

Ég var í atvinnuveganefnd árið 2015 þegar gerður var skurkur í þessu máli, að bæta það óréttlæti sem landsbyggðin bjó við þá, dreifbýlið sérstaklega, og munurinn var orðinn óþægilega mikill. Það virðist vera að það sé orðinn viðvarandi munur dreifbýlis og þéttbýlis í þessu kerfi. Við fórum nákvæmlega yfir þetta með ráðuneytinu og helstu sérfræðingum okkar og það liggur fyrir að dreifiveitur eiga t.d. inni núna nokkra hækkun og ég get ekki séð hvernig þær ætla að komast hjá því að hækka kostnað sinn og taka meiri gjöld. Það væri þá alla vega eitthvað að í kerfinu ef það gerist ekki. Það mun éta upp töluvert af þeim fjármunum sem eiga að fara til að jafna dreifikostnað þannig að við kölluðum eftir nákvæmlega því sama og við gerðum árið 2015.

Hvað myndi gerast ef ein gjaldskrá fyrir dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli yrði tekin upp á Íslandi? Ráðuneytið hefur auðvitað skoðað þetta og þar kom fram að af og til í tíu ár hefur þetta verið til skoðunar í ráðuneytinu. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að nú er kominn tími til þess að við klárum það mál og þá leið og sjáum hvort hún geti ekki orðið farsæl. Það eru ákveðnir ágallar á henni sem ég get alveg tekið undir og koma fram í mati á áhrifum sem ráðuneytið sendi okkur og fór yfir með okkur.

Sameinuð gjaldskrá myndi þýða hækkun í þéttbýli en lækkun í dreifbýli. Það hefur auðvitað legið fyrir. Almennt myndi lækkun á gjaldskrám í dreifbýli vera um 30% en hækkun í þéttbýli um 10% en ef horft er til heildarorkukostnaðar, rafmagns og hita, er lækkun í dreifbýli 12%, sem er u.þ.b. 35.000 kr. á heimili á ári en hækkun í þéttbýli um 2–3%, sem er u.þ.b. 4.000 kr. á ári á heimili. Það sér það auðvitað hver maður að það er eitthvað sem heimilisbuddan hjá svona allflestum myndi ekki verða vör við um hver mánaðamót.

Helstu kostirnir eru að þetta væri varanleg lausn og einföld út frá settum markmiðum. Þetta væri, eins og kemur fram í skjalinu hér, að fullu fjármögnuð leið með gjaldskrá notenda án ríkisframlags. Það er fordæmi að finna í olíudreifingu, fjarskiptum og póstþjónustu. Það yrði meiri fyrirsjáanleiki í kerfinu og samkeppnisstaða dreifbýlis og þéttbýlis yrði jafnari til lengri tíma og það er mál sem er gríðarlega mikilvægt, að jafna samkeppnisstöðu þéttbýlis og dreifbýlis.

Ég vil bara, virðulegur forseti, ítreka í þessari stuttu ræðu að það er mjög mikilvægt að við förum í þá vinnu, og helst sem fyrst, eins og kom fram í ræðu áðan, að það verði klárað á þessu ári að skoða virkilega þann kost og hvaða leiðir þarf til þess að ein gjaldskrá fyrir allt landið verði að veruleika, öllum til hagsbóta. Það er alveg sama hvað við reynum að hysja upp um þetta kerfi reglulega, við missum alltaf brækurnar niður á hælana vegna þess að jöfnunarframlögin eiga það til að minnka og bilið eykst milli dreifbýlis og þéttbýlis, fólkinu fækkar, kostnaðurinn eykst á hvern og einn og við verðum sameiginlega að standa vörð um að við búum í sama landinu við sama kostnað.