151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kosningalög.

339. mál
[22:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir framsöguræðuna í þessu máli og þá vinnu sem hér er lögð fram til umræðu á Alþingi. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns, að málið á sér alllangan aðdraganda. Við getum sagt að árið 2016 hafi vinna við breytingar á kosningalögunum verið alllangt komin þó að ekki tækist að gera þær breytingar á lögum sem þá lágu fyrir eftir vinnu starfshóps sem hafði starfað, ef ég man rétt, í tvö ár. Vinnan sem birtist í frumvarpinu er þó nokkuð umfangsmeiri eða nær til fleiri þátta en vinnan sem lá fyrir 2016. Í stórum dráttum má segja að það séu breytingar sem stafa af því að farin var sú leið í þessari vinnu að leggja til sameiningu lagabálkanna sem gilda um kosningar. Margar af þeim breytingum sem hér birtast eru afleiðing af því.

Almennt talað vil ég segja að margt í þessu frumvarpi og þeirri vinnu sem hér liggur fyrir er til bóta. Hér er margt áhugavert og væri til framfara, alveg tvímælalaust. Ég get líka tekið undir það að það eru ákveðnir þættir í núgildandi kosningalögum sem þörf var á að endurskoða og hægt að skoða bæði út frá tiltölulega einföldum tæknilegum atriðum, en líka stærri atriðum, eins og varðandi kæruleiðir og annað þess háttar. Ég verð að segja að þrátt fyrir að margt sé til bóta eru enn atriði þarna inni sem ég myndi vilja gera athugasemdir við eða teldi að þingið ætti að taka til nánari skoðunar áður en málið er afgreitt. Sumt af því er kannski smálegt og ástæðulaust að ræða í þessari umræðu og betra að taka fyrir í nefndarstörfum, eins og framkvæmdaratriði og annað þess háttar sem eiga í sjálfu sér ekki að þurfa að vera sérstök deilumál á þessum vettvangi.

En þau atriði sem ég vildi helst flagga hér við 1. umr. málsins snúa að stjórnsýslunni og þeim breytingum sem þar eru fyrirhugaðar og skipulagi kosningaframkvæmdarinnar í megindráttum. Til að gera langa sögu stutta, af því að ég ætla ekki að draga þessa umræðu neitt sérstaklega á langinn, eru þarna atriði sem ég tel að þyrfti að skoða sem varða skipun og hlutverk landskjörstjórnar. Um það vil ég segja að ég tel, og hef svo sem sagt það áður við eitthvert tækifæri, að ástæða sé til að efla landskjörstjórn, auka þann stuðning sem hún býr við og auka samfelluna í hennar störfum. Mér finnst kannski fulllangt gengið í stofnanavæðingu landskjörstjórnar með ákvæðum frumvarpsins og velti fyrir mér hvort öll þau atriði sem talin eru upp sem æskileg verkefni landskjörstjórnar þurfi endilega að vera þar. Látum það vera. Sum af þessum verkefnum eru þegar í höndum dómsmálaráðuneytis og það er kannski ekki úrslitaatriði hvort þau eru vistuð hjá dómsmálaráðuneyti eða landskjörstjórn. Aðalatriðið er að verkefnunum sé vel sinnt og að stjórnvöld sem hafa þau með höndum hafi til þess burði að sinna þeim. Ég endurtek það sem ég segi að mér finnst kannski nokkuð langt gengið í að stofnanavæða landskjörstjórn. Ég verð eiginlega að geta þess að í fyrri útgáfum frumvarpsins var talað um stofnun sérstakrar kosningastofnunar. Við það voru gerðar athugasemdir og það tekið út. En mér finnst breytingin kannski meira fólgin í því að það sem áður átti að heyra undir kosningastofnun er núna sett undir landskjörstjórn án þess að verið sé að breyta innihaldinu. Látum það vera. Það er atriði sem mér finnst að fara megi yfir.

Með sama hætti velti ég líka fyrir mér stöðu landskjörstjórnar í stjórnkerfinu. Hér er hún gerð að stjórnsýslunefnd sem heyrir undir dómsmálaráðherra, vissulega sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Í dag er stjórnin kosin af Alþingi og hefur sjálfstæði í samræmi við það. Ég játa það alveg að ég hefði, ef ég hefði setið við skriftir og gengið frá þessu frumvarpi, haldið því fyrirkomulagi og látið þingið kjósa landskjörstjórn í ljósi þess að þeir sem fara með æðstu stjórn kosningamála eiga að sækja vald sitt til kjósenda þó að það sé í gegnum stigskipt fulltrúakerfi. Þarna eru frávik í því sem mér finnst út af fyrir sig ástæðulaus og það er atriði sem ég myndi telja ástæðu til að skoða við yfirferð frumvarpsins.

Með sama hætti geri ég athugasemdir við að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að við alþingiskosningar starfi ekki yfirkjörstjórnir fyrir kjördæmin. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni hér áðan, að viss þversögn er fólgin í því að leggja niður yfirkjörstjórnir kjördæmanna og færa hluta þeirra verkefna til 73 yfirkjörstjórna sveitarfélaga vegna þess að með því að hafa yfirstjórn kosninga í hverju kjördæmi í höndum einnar yfirkjörstjórnar fyrir hvert kjördæmi er þó ívið auðveldara, hefði ég haldið, að tryggja samræmingu í framkvæmd og þess háttar en með því að færa veigamikið hlutverk út til allra staðbundnu kjörstjórnanna, ef svo má segja. Það er atriði sem ég myndi vilja fara yfir.

Grunneiningin í alþingiskosningum er auðvitað kjördæmið. Við getum tekið ákvörðun við annað tækifæri um hvort við viljum hafa kjördæmin fleiri eða færri. En grunneiningin í alþingiskosningum eru kjördæmin og mér finnst ekki fara illa á því að yfirábyrgð á kosningum og kosningaframkvæmd í hverju kjördæmi sé á einum stað en ekki mörgum. Með sama hætti tel ég að talning atkvæða ætti að eiga sér stað á einum stað í kjördæmi með þeim hætti sem hingað til hefur verið gert. Þrátt fyrir að það geti verið forvitnilegt fyrir áhugamenn um stjórnmál, stjórnmálamenn, stjórnmálaskýrendur, fjölmiðla og aðra að vita hvernig atkvæði falla nákvæmlega í einstökum sveitarfélögum þá held ég að ekki sé mikilvægt að draga það fram út frá sjónarmiðum lýðræðisins, vegna þess að kjördæmin eru grunneiningin í alþingiskosningum, ekki sveitarfélögin. Ég held að heppilegra sé að hafa eftirlit með framkvæmd talningar og annað þess háttar á einum stað frekar en mörgum. Gegn þessu hefur verið teflt fram því sjónarmiði að kosningar í sveitarfélögum séu nú þegar á ábyrgð kjörstjórnar viðkomandi sveitarfélaga og það hafi út af fyrir sig ekki verið nein sérstök vandkvæði varðandi það. Ég dreg ekki í efa að það sé allt saman framkvæmanlegt. En í ljósi þess að kjördæmin eru grunneiningin finnst mér einhvern veginn fara betur á því að þetta eigi sér stað með þessum hætti. Ég held að það skipti líka máli upp á eftirlit og aðkomu umboðsmanna framboða við talningu og annað. Það er einfaldara að eiga við það ef talningin er á sex stöðum á landinu í alþingiskosningum en ekki á meira en 70 stöðum. Það er atriði sem ég tel að skoða eigi í meðförum þingsins.

Aðrar athugasemdir sem ég hef rekist á við yfirferð nú, og reyndar líka á fyrri stigum, eru kannski frekar tæknilegs eðlis. Ég játa það alveg að ég spyr mig hvort ástæða sé til að kosningarrétturinn renni endanlega út að 16 árum liðnum frá því að viðkomandi kjósandi flytur frá landinu. Mér heyrðist hv. þingmenn hér áðan vera að reifa hugmyndir um að að 16 árum liðnum yrði hægt að endurnýja, sem mér finnst ekkert fráleit hugmynd, jafnvel þó að ljóst væri að að 16 árum liðnum væru kannski tengsl viðkomandi einstaklings við landið farin að dofna með einhverjum hætti. Ef einstaklingur hefur átt lögheimili utan landsteinanna í 16 ár er hann kannski ekki þátttakandi í samfélaginu með sama hætti og þeir sem hér búa og starfa og greiða hér skatta og annað þess háttar. En ég tel að það sé atriði sem sé vel athugandi að taka til athugunar og endurskoðunar í meðförum þingsins.

Ég er hugsi, eins og kannski fleiri þingmenn, varðandi möguleikana fyrir þá sem greiða atkvæði utan kjörfundar að greiða atkvæði aftur á kjördag. Ég tek undir það sem fram kom í andsvörum áðan, mér finnst það í sjálfu sér kannski ekki þurfa að vera vandamál þó að einstaklingur sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar ákveði, vegna þess að honum hefur snúist hugur eða eitthvað, að koma á kjörstað og greiða þá atkvæði og auðvitað er það þá síðari atkvæðaseðillinn sem á að gilda. Þetta er líka atriði sem mér finnst ástæða til að skoða.

Ég klóra mér pínulítið í höfðinu yfir þessu nýmæli varðandi póstatkvæði. Þarna er vissulega um að ræða mjög takmarkaða eða þrönga heimild, en ég myndi áskilja mér rétt til að velta fyrir mér fyrirkomulaginu hvað það varðar. Þetta er viðbót við núgildandi heimildir um utankjörfundaratkvæði sem er ágæt þó að það hafi vissulega, og er alveg viðurkennt, að komið hafa upp vandamál varðandi framkvæmdina erlendis og í sjálfu sér jákvætt að skoða einhverja nýbreytni í því sambandi. En auðvitað má ekki slaka á kröfum um öryggi og annað þess háttar. Það sama á við um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem felur í sér færanlegar kjördeildir — ég er nú að leita að því hvar þetta er í frumvarpinu. En alla vega held ég að við verðum að tryggja að þrátt fyrir að á annan kantinn sé æskilegt að tryggja að sem flestir geti greitt atkvæði þarf náttúrlega líka að vera hægt að tryggja öryggi í framkvæmdinni.

Hæstv. forseti. Tími minn er liðinn í þessari lotu. Ég fagna því að við fáum þetta til meðferðar (Forseti hringir.) hér í þinginu en bendi á að það tekur tíma að gera jafn viðamiklar breytingar og hér er mælt fyrir um. Það tekur tíma í meðförum þingsins, (Forseti hringir.) við verðum að gefa okkur tíma til þess í meðförum þingsins. Og svo tekur tíma að undirbúa framkvæmdina þegar lögin hafa verið samþykkt. Menn mega ekki flýta sér um of í þeim efnum.