150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni nýundirritað samkomulag hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjóra Reykjavíkur frá 28. nóvember sl. Í samkomulaginu er kveðið á um að fullkanna þá möguleika að reisa og reka varaflugvöll sem myndi þjóna innanlandsflugi sem og einka-, æfinga- og kennsluflugi sem er í takt við þær niðurstöður sem skýrsla stýrihóps samgönguráðuneytisins um flugvallarkosti á Suðvesturlandi kvað á um frá því í nóvember á þessu ári.

Það sem vekur áhuga minn eða athygli við lestur samkomulagsins eru þær forsendur sem til grundvallar eru lagðar, nánar tiltekið í e-lið 2. mgr. 2. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

„Greindur áætlaður nýtingarstuðull flugvallar í Hvassahrauni í samanburði við þá flugvelli sem fyrir eru á suðvesturhorninu.“

Í neðanmálsskýringu segir að nýtingarstuðull sé hlutfall daga sem áætlað er að flugvöllurinn verði opinn á ársgrundvelli.

Ég er hugsi yfir þessari skilgreiningu, sem er ný, og eftir því sem ég best veit á hún ekki stoð í lögum eða því síður reglugerð 4.6.4 frá 2007 um flugvelli sem byggð er á viðauka 14 frá Alþjóðaflugmálastofnuninni, ICAO. Þar er kveðið á um nothæfisstuðul, sem er annað orð, sem skuli vera 95% á ársgrundvelli miðað við fjölda og stefnu flugbrauta á viðkomandi velli og vinda. Það er ekki óútskýrt hlutfall af dögum í samanburði við einhverja aðra flugvelli.

Það er ámælisvert og stórundarlegt að við gerð samkomulagsins sem skuldbundið getur ríkið til tugmilljarða fjárútláta sé ekki hugað betur að grundvallaratriðum. Framkvæmdin, ef af verður, mun kosta 39–44 milljarða ef marka má skýrsluna, en 300 milljarða ef flugvöllurinn ætti að sinna millilandaflugi einnig. Ef sú leið yrði valin er ótalinn kostnaður sem myndi hljótast af uppbyggingu sérstaks flugvallar fyrir einka-, æfinga- og kennsluflug. Þá er einnig ótalinn sá kostnaður sem á eftir að hljótast af uppbyggingu í Keflavík og ekki ólíklegt að þarna sé um að ræða kostnað á bilinu 300–500 milljarða þegar allt er talið.

Ljóst er að von er á máli hér (Forseti hringir.) sem mun koma til meðferðar þingsins á næstu misserum sem gæti varðað ákvörðun um stærstu einstöku framkvæmd í sögu þjóðarinnar. Ég er hræddur um að með undirritun þessa samkomulags hafi aðilar ekki sama skilning á málinu en tíminn (Forseti hringir.) mun leiða í ljós hvort verður ofan á en í öllu falli fara hljóð og mynd ekki saman.