Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald.

350. mál
[16:47]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er svo sannarlega um mikilvægt frumvarp að ræða sem lýtur að umgjörð greinar sem á eftir að vaxa mikið í framtíðinni, sem er nýting sjávargróðurs til margþættrar efnavinnslu. Ég ítreka það sem ég benti á í andsvörum áðan að ég tel mjög mikilvægt að atvinnuveganefnd skoði að setja þetta í sérlög sem gætu heitið lög um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Nóg er nú búið að tala um lög um stjórn fiskveiða og að setja þetta inn í þau lög held ég að sé ekki rétt. Það væri mjög mikilvægt að það kæmi sérlöggjöf um þessa nýju atvinnugrein, ekki að tengja þetta núgildandi lögum um stjórn fiskveiða. Nóg er nú búið að þrasa um þau og deila. Þegar maður les frumvarpið þá tel ég líka að það væri vert að horfa á þetta meira út frá landi, það sé horft á þetta meira út frá landeigendum, eigendum sjávarjarða. Nýtingin er mikið innan netlaga. Ég spurði hér áðan hvort það væri vitað hversu mikið af þessu væri fyrir utan netlög. Það kom ekki fram, kannski liggja ekki fyrir tölur um það en það væri mjög fróðlegt að fá að sjá þær tölur.

Netlögin eru skilgreind í jarðalögum, 110 metrar frá stórstraumsfjöruborði. Það er önnur skilgreining til á netlögum í Jónsbók, eins og kom fram í þingsályktunartillögu á síðasta þingi, sem er líka mikilvæg. Ég tek fram að það er ekkert sem liggur fyrir um að hún hafi verið tekin úr gildi. Ef netlögin eru lengri en 110 metrar samkvæmt fornum lögum, einni mikilvægustu löggjöf sem Íslendingar hafa nokkurn tímann átt, sett 1282, þá er það varið stjórnarskrá. Ef nýtingin er fyrst og fremst innan netlaga þá verður þessi atvinnugrein fyrst og fremst byggð upp á vilja landeiganda og það verður að virða hann.

Ég get ekki annað, þar sem ég er farinn að tala um landeigendur, en minnst á það að í þjóðlendumálum sendi ríkið núna kröfu varðandi Austfirði og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur fyrir eru eyjar og sker. Þar er heimild, svo ótrúlegt sem það kann að hljóma, til þess að landeigandi sjálfur geri ríkisvaldinu, stjórnvöldum grein fyrir eign sinni. Það er ekki þannig að lögmaður ríkisins geri kröfur á svæði og svo verjist landeigendur heldur er þessu snúið við, eigendur eyja og skerja þurfa að gera grein fyrir landi sínu. Við getum ímyndað okkur hvað það þýðir varðandi friðhelgi eignarréttarins. Þeir fá ekki að hafa eignir sínar í friði, þurfa að gera grein fyrir landamerkjum sínum, landamerkjum sem hafa ávallt frá landnámi verið miðuð við nágrannann, menn marka landamerki gagnvart nágrönnum sínum.

Það var talað um veiðigjald sjávargróðurs hér áðan, veiðigjald og slíkt og ég tel alla vega þegar kemur að veiðigjaldi að það eigi að sjálfsögðu að greiða það til landeiganda. Það er þá samkomulagsatriði milli nýtandans sem er að afla sjávargróðurs í atvinnuskyni og landeigandans sem á netlögin og hann greiðir þá gjald samkvæmt samningi við landeiganda. Það kemur fram í greinargerðinni, ég get ekki lesið það öðruvísi en svo, að svo er gert í þörungavinnslunni á Reykhólum. Varðandi gjald til ríkissjóðs fyrir utan netlög þá hef ég ekki kannað það hreinlega nægilega mikið en það er þá bara seinni tíma mál. Þetta á fyrst og fremst að vera gagnvart landeigendum. Mér finnst að í 4. gr. frumvarpsins eins og það er í dag sé gert meira úr leyfinu en samkomulagi við landeiganda. Ég myndi telja að það væri réttara að í forgrunni væri samkomulag landeigenda og notanda og Fiskistofa eða jafnvel Umhverfisstofnun, þar sem þetta eru landeigendur, veitti aðstoð við þá samningsgerð. Það yrði þá bara ákveðið form og þar væri nýtingaráætlun, nýtingaráætlun væri hluti af samkomulaginu eða samningnum sem er á ákveðnu formi. Þannig sé leyfið raunverulega gefið og svo sé það bara samþykkt af stjórnvöldum til að koma í veg fyrir ofnýtingu og annað slíkt. Þannig að mér finnst nálgunin fullmikið á leyfi stjórnvalda en ekki samkomulag landeigenda og þess sem ætlar að nýta.

Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Haraldar Benediktssonar að þetta mál tengir svolítið landbúnað og sjávarútveg saman á skemmtilegan hátt og ég get minnt hér á fjörubeit sem hefur verið stunduð frá landnámi og er mjög mikilvæg fyrir sauðfjárbændur, þar er að sjálfsögðu verið að nýta þang og þara.

Það eru ákveðin atriði í frumvarpinu sem ég sé, m.a. áform um að reist verði verksmiðja til vinnslu á þangi í Stykkishólmi. Það er mjög vel og mikilvægt og gott að sjá að það sé aukinn áhugi á nýtingu á þessari náttúruauðlind. Í greinargerðinni er líka komið inn á það að í umsögn Reykhólahrepps sé lögð áhersla á mikilvægi þörungavinnslu fyrir byggðina á Reykhólum og í umsögn sveitarstjórnar leggur hún áherslu á að varlega verði farið í allar breytingar sem varða öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni og horft verði til byggðasjónarmiða og þróunar byggðar á landsbyggðinni sem er mjög mikilvægt atriði. Þar leggst sveitarstjórn einnig gegn breytingum sem fela í sér afslátt á rannsóknarskyldu áður en leyfi er veitt fyrir nýtingu. Það er náttúrlega grundvallaratriði að það séu stundaðar rannsóknir á þessu sviði og það verði ekkert veittur afsláttur á þeirri rannsóknarskyldu sem þegar er greinilega varðandi verksmiðjuna á Reykhólum. Ég tel líka mikilvægt að Hafrannsóknastofnun leggi þá út í frekari rannsóknir, og því er hér með komið á framfæri, þar sem um nýja atvinnugrein er að ræða. Það er mjög mikilvægt að þekking byggist upp á þessu sviði. Það á við um aðrar nýjar atvinnugreinar eins og fiskeldi og ég mun leggja fram mál sem verður væntanlega skráð á morgun um aukna þekkingu á Vestfjörðum varðandi fiskeldi.

Ég vil líka minna á umsögn Þörungaverksmiðjunnar eins og kemur fram í greinargerð:

„Í umsögn Þörungaverksmiðjunnar segir að með frumvarpinu sé kastað fyrir róða viðurkenningu á nýtingarrétti sem byggist á sögulegri nýtingarreynslu. Bent er á að réttur til að slá þang í fjöru heyrir til eiganda sjávarjarðar. Sláttur á þangi byggist samkvæmt frumvarpsdrögum áfram á samkomulagi milli fulltrúa fyrirtækja og eigenda sjávarjarða. Þá þykir, svo sem kemur fram á öðrum stað í greinargerð, eigi rétt út frá samkeppnissjónarmiðum að binda eigendur sjávarjarða við heimild til sölu á aðgengi að fjörum við takmarkaðan hóp vinnsluaðila.“

Það er sérstaklega síðasta setningin, það á náttúrlega að vera algerlega í höndum eigenda sjávarjarða að semja við þá sem þeir vilja semja á grundvelli samningsfrelsis í landinu, að stjórnvöld séu ekki með puttana í því nema hvað varðar nýtingaráætlunina, að það sé ekki verið að ganga of mikið á sjávargróður þannig að hann eyðist. Það á raunverulega að vera það eina sem takmarkar samningsfrelsi landeiganda sjávarjarða og þess sem nýtir, það er að gæta hagsmuna náttúrunnar.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla meira um þetta en vona að þetta fái mjög ítarlega umfjöllun í nefnd og hún skili nefndaráliti sem muni skapa grundvöll til góðrar umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég er því miður ekki nefndarmaður í atvinnuveganefnd en mun fylgja þessu máli eftir eins og kostur er. Þetta ætti ekki að vera deilumál á nokkurn hátt, þetta er spurning um framsetningu og ég vona að þetta fari ekki í þær deilur sem hafa verið um lög um stjórn fiskveiða síðustu 40 árin. Ég tel að þetta sé mál sem allir eiga að geta verið sammála um sé litið til stjórnarskrárinnar og geti verið til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag og hægt verði að skapa öfluga atvinnugrein í framtíðinni.