Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[19:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Í 8. gr. laga um opinber fjármál er fjallað um hagrænar forsendur stefnumörkunar og þar segir:

„Stefnumörkun í opinberum fjármálum skal byggjast á traustum forsendum og gögnum, sem unnin eru hlutlægt og kerfisbundið, og opinberum hagtölum og þjóðhagsspám þar sem tekið er mið af fjárhagslegum og efnahagslegum áhrifum af áformum stjórnvalda.“

Hvaða áhrif hafa áform stjórnvalda í þjóðhagslegu samhengi? Það er það sem ég er að gagnrýna að vanti. Það er ekki hérna. Ástæðan fyrir því að ég dreg upp þessar þjóðhagsspár í álitinu er t.d. sú að í októberspánni 2020 er gert ráð fyrir 15,8% aukningu í opinberri fjárfestingu en niðurstaðan varð samdráttur upp á 5,2%. Þetta er alveg ótrúlegur munur á umfangi opinberrar fjárfestingar í tveimur aðliggjandi þjóðhagsspám. Það er eins og hið opinbera hafi ekki hugmynd um hvað það er sjálft að gera í eigin opinberum fjárfestingum. Það er það sem ég er að gagnrýna með því að leggja fram þessar mismunandi þjóðhagsspár í fjármálaáætlun 2019, 2020, 2021 og 2022. Hið opinbera nær ekki að setja sér markmið um þróun, t.d. í opinberri fjárfestingu, og svo stenst hún alls ekki, þ.e. við sjáum ekki stefnuna. Við sjáum einhverja endurspeglun af henni í þjóðhagsspá sem skeikar um heil 20 prósentustig, sem er rosalegt. Það er það sem vantar hérna. Ég vil að það sé unnið samkvæmt 8. gr. og ég vil að áform stjórnvalda séu opin og gagnsæ okkur öllum til þess að við getum skoðað á hvaða hátt stefna stjórnvalda hefur jákvæð eða neikvæð áhrif á samneysluna eða opinberar fjárfestingar eða þess háttar. Það er það sem vantar og þess vegna kvarta ég.