Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið, það var áhugavert að heyra. Hér er nefnt auðlindagjald og auðlegðarskattur og annað slíkt og það væri áhugavert að vita hvort Viðreisn hafi rætt eitthvað sérstaklega hvað auðlindagjaldið ætti að vera ef ekki þessi 33% t.d. af auðlindum hafsins. Erum við að tala um önnur auðlindagjöld, því að við gleymum dálítið hinum auðlindunum, jarðvarmanum og öllu því sem við höfum um að ræða í því samhengi? Það væri ágætt að fá svar við því.

Ég er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður þannig að ég átta mig alveg á því um hvað er að ræða. Það er gert ráð fyrir því núna að neikvæð rekstrarniðurstaða samkvæmt upplýsingum hjá sambandinu verði um 1,5% af tekjum sveitarfélaga. Það eru ríflega 6 milljarðar sem eru miklir peningar. Við þekkjum líka að það eru mörg minni sveitarfélög sem eiga erfiðara með að takast á við þau verkefni sem voru nefnd, m.a. sorphirðumálin og fráveiturnar. En það hlýtur að vera eitthvað sem við viljum og verðum að gera. Við getum ekki ýtt því lengur frá okkur. Eins og hv. þingmaður nefndi eru sumir með allt niðrum sig í þessum málum en annars staðar er verið að gera þetta mjög vel og búið að vera að gera þetta vel, hvort heldur eru fráveiturnar eða sorphirðumálin. Við heyrðum það líka í kjördæmavikunni að það eru áhyggjur af því að innleiðingartíminn sé ekki nægilega langur. Ég veit að sambandið átti t.d. að gera handbók um miðlægan grunn fyrir sorphirðumálin. Ég er ekki búin að kanna hver staðan er núna að þessum mánuðum liðnum, hálfu ári eða svo, hvort það liggur ekki enn þá fyrir. Það er auðvitað bagalegt ef svo er ekki því að það voru veittir sérstakir fjármunir til að gera þetta.

Við getum ekki ýtt þessum málum endalaust frá okkur en við þurfum kannski að horfa samt sem áður til einhvers annars en bara útsvarsins. Ég held að við þurfum að vera með einhverja hugmyndaauðgi í því að velta fyrir okkur hvar annars staðar við getum við borið niður án þess að það sé mjög íþyngjandi fyrir íbúana.