153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[16:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Líkt og fram hefur komið í umræðunni fyrr í dag samþykkti Alþingi í apríl í fyrra bráðabirgðaákvæði við lög um tekjuskatt. Hugmyndin var að hvetja til fjárfestinga, einkum grænna fjárfestinga. Áhyggjur voru uppi um efnahag og atvinnu eftir heimsfaraldur og þessar ívilnanir því samþykktar á Alþingi líkt og fleiri mótvægisaðgerðir í heimsfaraldrinum. Heimilt er samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu við tekjuskattslögin að afskrifa hraðar fjárfestingar sem farið er í á árunum 2021 og 2022. Gert er ráð fyrir flýtifyrningum um allt að 50% í stað 20% sem lögin leyfa. Þessar ívilnanir eiga m.a. um fjárfestingar í skipum.

Það er von að fólk spyrji hvað þetta hafi nú allt með veiðigjöldin að gera. Ástæðan er sú að fastur kostnaður við fiskveiðar er dreginn frá upphæðinni sem notuð er til að reikna veiðigjald hvers árs. Til fasts kostnaðar við fiskveiðar teljast skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar og áætluð vaxtagjöld sem nema skulu sömu fjárhæð og fyrningarnar. Sem sagt, herra forseti: Veiðigjöldin sem gjöld fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar eru undir geðþótta útgerðarmanna komin að þessu leyti og geta sveiflast af þeim sökum um milljarða króna, sveiflast vegna ákvæða í lögum um veiðigjöld um að fjármagnskostnaður komi til frádráttar frá gjaldstofni. Í stað þess að forðast bókhaldslegar fyrningar og aðrar fjármálalegar færslur eru þær teknar uppblásnar inn í útreikning veiðigjalda. Sérstök hækkun bókhaldslegra fyrninga lækkar tekjuskattsstofn viðkomandi útgerðar og hefur einnig áhrif á veiðigjöld. Þannig hefur hvati til fjárfestinga, líkt og bráðabirgðaákvæðinu var ætlað að vera, bein áhrif á útreikning veiðigjalda og samkvæmt núgildandi reglum um útreikning gjaldanna munu kaup á nýjum 6 milljarða kr. togara á árinu 2021 lækka veiðigjöld ársins 2023 um allt að 20% þeirrar fjárhæðar eða 1,2 milljarða kr. Með hinni sérstöku flýtifyrningu sem samþykkt var í apríl á síðasta ári getur þessi lækkun orðið allt að 50%, þ.e. um 3 milljarðar kr.

Augljóslega þarf að breyta þessu fyrirkomulagi hið allra fyrsta til hagsbóta fyrir eigendur auðlindarinnar. Efnahagur landsins, hagur heimila og margra fyrirtækja hefur orðið fyrir búsifjum vegna heimsfaraldurs og ófriðar í Evrópu. Þrátt fyrir það var methagnaður í sjávarútvegi í fyrra og sjávarútvegur dafnaði áfram í ár, ekki síst vegna hagstæðrar verðþróunar og veikingar krónunnar upp á síðkastið. Á sama tíma stendur ríkissjóður illa og þrengingar eru í heilbrigðis- og velferðarmálum.

Stefna Samfylkingarinnar hefur verið skýr í þessum efnum frá stofnun flokksins. Við viljum sækja sanngjarnt verð fyrir fiskveiðiauðlindina og gera nýliðun mögulega með útboði á hæfilegu magni af úthlutuðum kvóta og tímabundnum samningum, með umgjörð um útboð sem tekur tillit til smærri útgerða og byggðasjónarmiða í stað þess að stjórnmálamenn kokki upp reiknireglu líkt og nú er gert sem veitir útgerðarmönnum tækifæri til að lækka veiðigjöld með skattalegum tilfæringum.

Hvers vegna, forseti, látum við ekki markaðinn ráða eins og við gerum þegar verð er ákveðið á annarri vöru? Það er spurning sem við verðum að svara. Það er mjög mikilvægt fyrir þjóð sem byggir efnahag sinn eins mikið á nýtingu náttúruauðlinda og við Íslendingar gerum að hafa beinar tekjur af nýtingu þeirra. Heppilegasta leiðin til að ákveða gjald fyrir sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind er að nýta markaðslögmálin, bjóða út sérleyfin og útfæra tilboðsleiðina með því að setja útboðsreglur sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun aflaheimilda og virða sérstöðu minni útgerða. Þetta er allt hægt. Það liggur beinast við að nota tilboð á tilboðsmarkaði þegar kvóta tiltekinnar fisktegundar er útdeilt eða viðbótartonnum samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar. Ólíklegt er að sátt náist um upphæð veiðigjalds fyrr en það verður ákveðið á markaðslegum forsendum. Einn af kostum tilboðsleiðarinnar er að leigugjald sem greitt er fyrir aflahlutdeildir sveiflast sjálfkrafa með arðsemi veiða og dregur úr líkum á pólitískum inngripum um ákvörðun leiguverðs. Sú leið er gegnsæ, fyrirsjáanleg og skiljanleg. Það er meira að segja nægilegt að taka hluta af kvótanum og bjóða hann út til að fá viðmiðunarverð. Við í Samfylkingunni höfum lagt til að 5% kvótans verði boðin út á ári hverju. Eigendur auðlindarinnar eiga rétt á því að fá sanngjarnt verð fyrir auðlindina. Upphæð leiguverðs á ekki að byggjast á matskenndum ákvörðunum líkt og nú er gert. Eigendur auðlindarinnar, fólkið í landinu, eiga að geta treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram annan. Útgerðin ákvarðar sjálf það gjald sem hún telur sér fært að greiða fyrir aðgang að auðlindinni með tilboðum á markaði og það kemur líka í veg fyrir brask með kvótann. Einnig styrkir tilboðsleiðin rekstrarumhverfi sjávarútvegsins til lengri tíma vegna þess að duttlungar stjórnmálamanna ráða ekki með ófyrirséðum breytingum frá einu kjördæmi til annars. Svigrúm innan kerfisins verður meira með tilboðsmörkuðum og nýliðun möguleg sem veitir best reknu fyrirtækjunum aukin tækifæri, hvort sem þau eru gömul eða ný. Í útfærslu tilboðsleiðar er auðvelt að taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Mögulegt er að leita í smiðju sérfræðinga um útboð á takmörkuðum auðlindum.

Þjóðin á kvótann. Það stendur í lögum og það hefur Hæstiréttur staðfest margsinnis. Við getum breytt kerfinu þegar við viljum. Það þarf einungis ákvörðun Alþingis til að gera það. Það þarf pólitískan vilja til að bæta og gæta að hag almennings í þessum efnum. Útboðið er hin almenna regla og viðhaft þegar ríkið úthlutar réttindum eða verkefnum til fyrirtækja, hvort sem úthluta á takmörkuðum gæðum líkt og losunarheimildum og tíðnisviði, eða úthlutun á stórframkvæmdum og veitingu sérleyfa í samgöngum. Forréttindaúthlutun sem tíðkast í sjávarútvegi gengur gegn stefnu okkar jafnaðarmanna.

Herra forseti. Ef rétt er á málum haldið leiðréttir tilboðsleiðin óréttlætið sem felst í því að ávinningur af hagræðingu innan útgerðarinnar renni í vasa fárra en íbúar sjávarbyggða beri kostnaðinn. Hún auðveldar um leið nýliðun í greininni. Fiskmarkaðir á Íslandi eru góðar fyrirmyndir þar sem markaðslausnir ráða. Þar kaupa fiskvinnslur sem eru án kvóta fisk daglega á tilboðsverði. Þau fyrirtæki hafa enga aðra rekstrartryggingu en þá að tilboðsmarkaðurinn verði starfandi á morgun. Aldrei er deilt um verð á fiskmarkaði eftir að viðskiptin hafa átt sér stað, enda hafa kaupandi og seljandi komið sér saman um verðið. Allar fiskvinnslur landsins hafa jafnan aðgang að fiskmörkuðum. Nýliðun í fiskvinnslu er því miklu auðveldari en í veiðum þótt útflutningur á óunnum fiski ógni rekstri kvótalausra fiskvinnsla um þessar mundir, sem er alvarlegt því að ef rekstur þeirra leggst af tapast atvinnutækifæri og þekking úr sjávarbyggðum landsins. Það er mikilvægt að greina muninn á veiðum og vinnslu. Fiskvinnsla borgar ekki veiðigjöld og hefur reyndar aldrei gert þó að horft hafi verið til arðsemi þeirra við fyrri reglur, en það er ekki svo í þeim reglum sem núna eru um veiðigjöld. Hækkun eða lækkun veiðigjalda hefur engin áhrif á rekstur fiskvinnslu. Eingöngu veitt magn af fiski hefur áhrif á framboð á fiski til fiskvinnslunnar og á fiskverð því að verðmyndun á veiddum fiski er frjáls. Réttlát veiðigjöld hafa ekki áhrif á hve margir fiskar eru dregnir úr sjó. Vextir og sveifla íslensku krónunnar hafa hins vegar mikil áhrif á rekstur fiskvinnslunnar í landinu.

Forseti. Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu veiðigjaldi í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir hafa þurft að greiða stærri útgerðum undanfarið um 400 kr. fyrir kíló af þorski á meðan ríkið innheimtir aðeins tæplega 18 kr. í veiðigjald. Það fer nefnilega fram útboð á aflaheimildum á Íslandi. Því er bara ekki stýrt af opinberum aðilum. Ávinningurinn rennur ekki í ríkissjóð heldur í vasa útgerðarmanna sem leigja frá sér kvóta sem ríkið hefur úthlutað þeim. Þar gilda markaðslögmálin og krónurnar renna í vasa útgerðarmanna og þaðan í vasa erfingja þeirra líkt og stærsti hluti arðseminnar af nýtingu auðlindarinnar. Óréttlætið og ójöfnuðurinn viðhelst og erfist. Fiskveiðikerfinu þarf að breyta í heild sinni en það er hægt að stíga skref í rétta átt. Ef Hafrannsóknastofnun gerir tillögu um viðbótarkvóta þarf lagabreytingu þannig að bjóða megi aukninguna út. Hvers vegna ættum við líka að rétta útgerðinni viðbótarkvótann á silfurfati og stærstu útgerðunum bróðurpartinn? Þær líða sannarlega engan skort. Á meðan kvótinn er ekki boðinn út þurfum við að mínu mati í það minnsta að hækka veiðigjöldin á stærri fyrirtækin. Það mætti t.d. gera með 50% álagi á heimildir umfram 5.000 tonn og að fjármunirnir sem fyrir það fengjust yrðu nýttir til þess að styrkja byggðir landsins til fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar. Það er afar mikilvægt fyrir þjóð sem byggir efnahag sinn eins mikið á nýtingu náttúruauðlinda og Íslendingar gera að hafa beinar tekjur af nýtingu þeirra. Þjóðaratkvæðagreiðsla um efnisatriði nýrrar stjórnarskrár frá því í október 2012 leiddi í ljós afgerandi stuðning við ákvæði um ævarandi þjóðareign á náttúruauðlindum, að nýtingarrétti yrði úthlutað til ákveðins tíma gegn fullu gjaldi með gegnsæjum og hlutlægum hætti. Það þarf að fylgja þeirri niðurstöðu eftir og innleiða heildstæða auðlindastefnu á forsendum sjálfbærrar þróunar þannig að þjóðin njóti arðsins af auðlindum sínum.

Herra forseti. Á Facebook-síðu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs segir, með leyfi forseta:

„Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, leggur til að veiðigjald hækki á næsta ári um 2,5 milljarða kr. á nafnvirði miðað við núverandi áætlun næsta árs. Hækkunin leggst aðallega á uppsjávarútgerðirnar sem veiða síld, loðnu, kolmunna og makríl og er gert ráð fyrir að þær greiði 2,3 milljarða kr. á árinu 2023 í stað þeirra 700 milljóna sem þær myndu greiða að óbreyttu. Á grundvelli gildandi laga myndu útgerðirnar greiða í ríkissjóð 7 milljarða kr. í veiðigjöld á næsta ári en samþykki Alþingi breytinguna munu þær greiða 9,5 milljarða. Hækkunin nemur því tæplega 36%.“

Mér finnst í raun grátbroslegt að Vinstrihreyfingin – grænt framboð skuli reyna að slá sér upp og halda því fram að verið sé að hækka veiðigjöld á uppsjávarútgerðirnar um 36%. Hæstv. ráðherra er ekki að leggja til hækkun veiðigjalda á uppsjávarútgerðir heldur aðeins að fletja út þá kúrfu sem uppblásnar bókhaldslegar fyrningar og aðrar fjármálalegar færslur hafa á útreikning veiðigjalda. Þar með verða þau hærri á næsta ári en lægri á þeim næstu þar á eftir. Í stað slíkra blekkingarleikja líkt og VG býður okkur upp á á Facebook-síðu sinni þurfa stjórnvöld að standa í lappirnar og hafa kjark til að breyta lögum um tengda aðila sjávarútvegsfyrirtækja, vinna gegn samþjöppun og koma á útboði á aflaheimildum til að gera nýliðun mögulega og fá sanngjarnt veiðigjald í ríkissjóð.

Herra forseti. Hér áðan í andsvörum og í ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar voru vangaveltur um hvort frumvarpið væri að boða varanlegar breytingar eða hvort breytingarnar ættu bara við fjárfestingar á árinu 2021 og 2022, nýfjárfestingar á þeim árum, líkt og segir í greinargerð með frumvarpinu og umræðan í hv. atvinnuveganefnd gekk öll út á. Í staðinn fyrir að koma með breytingar á lögum um veiðigjald eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, og í þessari breytingu er náttúrlega ákveðin afturvirkni, þá hefði verið hreinlegra að gera breytingar á lögum um tekjuskatt og segja að bráðabirgðaákvæðið sem við samþykktum hér í fyrra eigi ekki við 1. tölulið 37. gr. tekjuskattslaganna en í 1. tölulið eru skip undir og þaðan koma þessi áhrif sem verða síðan til þess að veiðigjöldin breytast. Það hefði verið mun hreinlegra. Það er sannarlega afturvirkt en það er líka afturvirkni í þessu frumvarpi sem við erum að tala um hér. Ef við hefðum sagt sem svo að bráðabirgðaákvæðið ætti ekki við um 1. tölulið 37. gr. laga um tekjuskatt þá hefði bara gamla reiknireglan legið undir þar sem möguleiki er að fyrna á milli 10–20% á hverju ári.

Annað sem styður að það hefði verið skynsamlegra að fara þessa leið að hreinlega taka upp tekjuskattslögin aftur og breyta bráðabirgðaákvæðinu er að enginn ákveður með nokkurra vikna eða mánaða fyrirvara að fjárfesta í 6–7 milljarða togara eða fara út í einhverjar slíkar grænar fjárfestingar út af þessum ívilnunum sem þarna koma fram, einfaldlega vegna þess að undirbúningurinn tekur miklu lengri tíma en svo. Ég leyfi mér að fullyrða að engum hafi dottið í hug að nýfjárfestingar í sjávarútvegi myndu leiða til þess að útgerðarmenn gætu notfært sér þessa ívilnun sem fram kemur í bráðabirgðaákvæðinu sem við erum alltaf að vitna í. Þeir sem voru hvort sem er að fjárfesta í dýrum skipum duttu bara í lukkupottinn og fengu þessar ívilnanir með flýtifyrningum, sem er sannarlega ívilnun sem hefur áhrif á rekstur útgerðanna alveg eins og það skiptir máli fyrir ríkissjóð, sem er núna að reka sig á lánum, að fá hærri veiðigjöld í kassann. Það skiptir máli og er mikilvægt. Þess vegna munum við í Samfylkingunni ekki leggjast gegn frumvarpinu en teljum sjálfsagt að meiri hlutinn beri ábyrgð á því.