144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sannarlega mun þetta ekki styðja þingmenn Framsóknarflokksins á landsbyggðinni þegar þeir þurfa að horfa framan í kjósendur sína sem þeir hafa líka heitið að hækka ekki matarskattinn. Það snertir þá öðruvísi, það eru þeir sem framleiða þennan varning. Ég held að það verði ákaflega erfitt fyrir þá.

Það er ákaflega gott og auðvelt fyrir hv. þingmann og aðra þingmenn Framsóknarflokksins að tala um að það gagnist þeim lægst launuðu að lækka vörugjöld á ísskápum og frystikistum og flatskjám. Ég held því miður að hagur margra þeirra sé með þeim hætti að þeir geti ekki keypt sér slíkar vörur nýjar.

Framsóknarflokknum er ekki alls varnað. Hann hefur gert margt gott og hann telur sér margt til tekna. En hann skilur ekki enn, þegar hann horfir í spegil, hvernig á því stendur að þrátt fyrir öll hans góðu verk þá tosast hann ekkert áfram í skoðanakönnunum. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem nýtur alls hins góða sem framsóknarmenn telja sér til tekna. Af hverju? Vegna þess að fólk sér að þeir bregðast yfirlýsingum sínum. Þetta er ekkert annað en brestur á efndum þegar Framsóknarflokkurinn gengur á bak orða sinna um viðnám gegn matarskatti.