144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það hefur í raun og veru farið fram gífurleg tekjutilfærsla innan þjóðfélagsins á stuttum tíma. Við höfum ekki séð fyrir endann á því. Byrðum hefur verið létt af stórfyrirtækjum í landinu og hátekjufólki, auðlegðarskattinum, og þess í stað settur klafi á almenning í landinu. Sá er veruleikinn. Þetta eru ekki litlar fjárhæðir.

Það var nefnt áðan að ef vörugjöldin á sykri yrðu áfram væri hægt að fjármagna Landspítalann á einhverjum árum. Ef maður setur þetta í samhengi sjáum við hvað þarna er á ferðinni. Menn eru að létta álögum á óhollustu, hækka matarverð á hollt fæði og létta sköttum á þeim sem græða mest í þjóðfélaginu, stórútgerðinni í landinu.