145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[14:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Heiðu Kristínu Helgadóttur fyrir að hefja þessa umræðu.

Ég vil byrja á því að segja að við þróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu og eins samgöngukerfisins almennt verður að horfa til hinnar lögbundnu langtímamarkmiða um að samgöngur séu greiðar, þær séu öruggar, þær séu hagkvæmar og þær séu umhverfislega ásættanlegar. Hvað umhverfisþáttinn snertir sérstaklega hef ég lagt áherslu á að leitað verði fjölbreyttari leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka hlut vistvænni orkugjafa. Þá tel ég mjög mikilvægt að horfa til þess hvernig samgöngukerfið er í heild sinni og hið margþætta hlutverk þess. Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, sem hv. þingmaður nefnir, er einn þáttur í því mengi og er horft til þess við undirbúning 12 ára stefnumarkandi samgönguáætlunar. Í því sambandi má geta þess að Vegagerðin og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa gert með sér samkomulag um þróun samgöngukerfa á höfuðborgarsvæðinu í framhald af samþykkt svæðisskipulagsins. Þar er miðað við að ljúka fyrir árslok 2016 ýmsum úttektar- og úrvinnsluverkefnum sem snúa að þróun stofnvegakerfisins, þróun stofnleiða hjólreiða og þróun almenningssamgangna.

Þá er líka í gildi samningur sem ríkið gerði við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu 7. maí 2012 til tíu ára. Tilgangur hans og markmið voru meðal annars að stórauka hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og skapa forsendur til frestunar á stórum framkvæmdum í samgöngumannvirkjum á svæðinu á þeim tíma. Enginn vafi er á því að ekki er viðunandi að framkvæmdir í samgöngumannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu víki stöðugt. Það verður að vera hægt að horfa á samspil almenningssamgangna og nauðsynlegrar uppbyggingar samgöngumannvirkja. Ég vil ekki stilla þessu upp hvort gegn öðru. Hvort á að geta stutt við hitt.

Í samningnum sem ég er hér að vísa í var gert ráð fyrir því að ríkið legði 900 millj. kr. árlega á samningstímanum til reksturs almenningssamgangna á starfssvæði svæðisskipulagsins. Eigendur Strætó skuldbundu sig til að leggja fram 2.347 millj. kr. árlega. Báðar upphæðir skyldu taka breytingum í samræmi við vísitölu, sem tilgreindar eru í samningnum. Í þessum samningi kemur skýrt fram að fjárframlag ríkisins sé með fyrirvara um samþykkt Alþingis á fjárlögum hvers árs. Að sama skapi eru framlög sveitarfélaga með fyrirvara um samþykktar fjárhagsáætlanir þeirra.

Greiðslur ríkisins vegna þessa samnings hafa eins og tölur sýna lækkað nokkuð ár frá ári frá því að samningurinn var gerður. Ég legg hins vegar áherslu á að það fáist fjármagn til þess að koma til móts við samningsviðmiðin og miða ég því tillögur ríkisstjórnarinnar fyrir 2. umr. fjárlaga við að 100 millj. kr. fáist til þessa. Það á að duga til þess að ríkið standi við þann samning sem var gerður. Ég vonast til þess enn og aftur að þingið sýni þessum tillögum skilning. Ég hygg jafnframt að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu mér sammála um það.

Eins og ég sagði hér áðan þá var það hluti af þessum samningi að fresta tilteknum stórum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu á meðan hann væri í gildi. Það hefur verið með þeim hætti, en ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að það þarf að líta til höfuðborgarsvæðisins líka þegar kemur að uppbyggingu samgöngumannvirkja. Varðandi nánustu framtíð vegna þessa þá liggur fyrir að samningurinn sætir endurskoðun á tveggja ára fresti og er framvinda og árangur verkefnisins þá metinn eftir ákveðnum viðmiðum. Fyrsta framvindumatið fór fram vorið 2014 og þá var það sameiginleg niðurstaða ríkis og sveitarfélaga að verkefnið þróaðist eðlilega og rétt væri að halda því áfram. Næsta formlega framvindumat á að fara fram vorið 2016. Þá verður auðvitað komin meiri reynsla á verkefnið og hægt að leggja mat á hvort forsendur fyrir frestun þessara framkvæmda standist, m.a. í ljósi umferðarþróunar og annarra sjónarmiða sem kunna að skipta máli í því sambandi.

Ég legg aftur áherslu á það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að við verðum að geta horft á uppbyggingu almenningssamgangna og nauðsynlegra innviða í samgöngukerfinu saman. Það er alveg ófært að stilla hlutunum upp með annaðhvort/eða. Fjölbreytt flóra fólks býr í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu, nota bene, og við verðum um leið og við leggjum fram stefnu til frambúðar að taka tillit til þess.