150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

framlagning stjórnarmála.

[16:40]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau orð sem sögð voru rétt áðan. Ég hélt að ég fengi mál á dagskrá á morgun í velferðarnefnd sem er svokallað forgangsmál og ég óskaði eftir því að fá það á dagskrá vegna þess að á fundi fyrir stuttu nefndi varaformaður nefndarinnar að það væri gott ef við myndum huga að okkar þingmannamálum. Þetta gerði hann vegna þess að formaður nefndarinnar var staddur í öðrum erindagerðum á vegum þingsins. Mér þykir því merkilegt að nú þegar ég bið um að fá mitt forgangsmál á dagskrá komi fjöldinn allur af tölvupóstum frá stjórnarliðum sem segja að það sé ekki hægt vegna þess að við séum loksins núna búin að fá mál frá félags- og barnamálaráðherra sem við séum búin að bíða eftir. Við erum búin að bíða svo lengi eftir þeim að alla vega einu sinni var boðað fundarfall í nefndinni af því að engin mál lágu fyrir.