151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

skráning einstaklinga.

207. mál
[15:41]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi koma hingað upp til að benda Alþingi á að hér er kannski ekki um stórt mál að ræða, hér eru lagfæringar á gildistöku í þjóðskrá, en hér er líka heimild til að gefa út kerfiskennitölu fyrir andvana fædd börn eftir 22. viku meðgöngu. Ég ætla að segja ykkur að ég hef sjaldan fengið eins mikil viðbrögð við nokkru máli sem ég hef lagt fram frá fólki sem þakkar fyrir það. Ég vil þakka Alþingi fyrir skjóta afgreiðslu á þessu máli og skilning og fyrir að undirstrika þar með hversu mikilvægt það er að virða það að þessi einstaklingur var til, sönnun þess, og að tryggja réttindi foreldranna. Í nefndaráliti er fjallað um að skoða það að gefa út kerfiskennitölu ef fósturlát verður eftir 18 vikna meðgöngu líkt og lagt er til vegna barna sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu, og það munum við gera í ráðuneytinu.