Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald.

350. mál
[16:41]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka þátt í 1. umr. um þetta merkilega frumvarp sem hæstv. ráðherra mælti hér fyrir og lýsti í sjálfu sér ákveðinni umgjörð sem búin var um samsvarandi mál árið 2017 og hvers vegna hún þarf að taka það upp aftur á Alþingi og við þurfum að endurnýja löggjöfina af því að vinna þingsins á þeim tíma var ákveðin þróunarvinna eða tilraunastarfsemi til að ná utan um nýtingu á þessari auðlind sem ekki hafði verið reglusett með skýrum hætti.

Vegna þeirrar umræðu sem varð hérna áðan vil ég, virðulegur forseti, til gamans geta þess að það eru kannski ófá mál sem tengja betur saman landbúnað og sjávarútveg en einmitt þetta mál. Hvar sleppir hefðbundinni nýtingu bújarða og hvar tekur hafsvæðið við, hin almenna eign og nýting þeirra auðlinda sem þar eru? Þetta var einmitt meginglíma þingsins árið 2017 þegar var verið að ræða þessi lög.

Gríðarleg tækifæri felast í nýtingu þangs og þara. Þau tækifæri eru stöðugt að koma nær okkur og verða raunhæfari og sýnilegri og það er aukinn og vaxandi áhugi á að byggja upp atvinnustarfsemi sem byggist á þessari nýtingu. Það var einmitt kannski þess vegna sem brugðist var við með lagasetningunni árið 2017 til að ná utan um það. Það hefur kannski ekki orðið sama þróun og við bjuggumst við á þeim tíma og kannski ekki mikið fjölgað í hópi þeirra fyrirtækja sem nýta þennan sjávargróður eins og þá leit út fyrir en meginefni frumvarpsins er fyrst og fremst það að hverfa frá þeirri stýringu sem þingið ákvað þá yfir í nýtingaráætlunaraðferð sem ég held að geti verið mjög góð aðferð og skynsamleg til að byggja á. Þingið kallaði á sínum tíma eftir rannsóknum á afkastagetu þessa sjávargróðurs, svo maður einfaldi myndina sem best, þ.e. hver afkastageta sjávargróðurs væri til nýtingar.

Þegar við förum að ræða málið út frá nýtingaráætlunum og með þá þennan bakgrunn í þeim rannsóknum sem þegar eru komnar þá má ná betur utan um ráðgjöf og ábyrga nýtingu. Hins vegar er það að segja að hér ræðum við kannski fyrst og fremst um Breiðafjörðinn sem slíkan. Ég held að okkur beri rík skylda til að ganga gætilega um og nýta með ábyrgum hætti það hafsvæði og þá matarkistu sem Breiðafjörðurinn er og þær gríðarlegu auðlindir sem eru í Breiðafirði. Hins vegar eru fleiri svæði á landinu sem hafa þennan möguleika á nýtingu sjávargróðurs og áhugi að vakna víðar um það.

Það sem ég vildi leggja inn í 1. umr. málsins, og beina því til hv. atvinnuveganefndar að ræða kannski í framhaldi af þeim rannsóknum sem búið er að gera um sjávargróðurinn og afkastagetu hans, er hlutverk sjávargróðurs fyrir t.d. fiskstofna og uppeldisskilyrði ýmissa fisktegunda og hvaða áhrif gróðurinn og nýting hans hefur í þeim efnum. Auðvitað er hægt að segja að það sé hægt að rannsaka mikið og aldrei nóg að gert í þeim efnum en ég skynja það á íbúum við Breiðafjörð að þetta er kannski sú spurning sem núna er hvað sterkust þegar við horfum framan í það að búið er að gera ákveðnar grunnrannsóknir, verið að undirbúa byggingu verksmiðju og fleiri aðilar að láta vita að þeir vilji koma að nýtingu sjávargróðurs, að við þekkjum meira og betur áhrif þess að nýta gróðurinn og slá hann og á lífríkið að öðru leyti í firðinum. Á þessu er aðeins tæpt í greinargerð með frumvarpinu en sannarlega ástæða til að hnykkja á því í meðferð málsins hvar sú þekking stendur því að það er eins með þetta og svo marga aðra þætti og lífríki allt, þetta helst allt í hendur. Inngrip á einum stað getur haft mikil áhrif á öðrum stað.

Það er hins vegar hægt að segja að frá því að við ræddum frumvarpið sem lagt var fram 2017 til dagsins í dag hefur verið aflað mikillar þekkingar og við erum á allt öðrum stað til að setja reglur um nýtingu sjávargróðurs en við vorum þá. Þess vegna held ég að það framfaraskref sem stigið er í þessu frumvarpi geti orðið til mikilla heilla en það er fyrst og fremst þessi þáttur um hlutverk sjávargróðursins fyrir aðra nytjastofna í Breiðafirði og annars staðar í kringum landið sem við þyrftum að ná betur utan um og hafa í huga þegar við erum að leggja út reglur sem byggjast á þeirri nýtingaráætlun sem hér er talað um þannig að við getum með góðri samvisku sagt: Við erum að stefna að sjálfbærri nýtingu sem á að vera og er grunnstefið í allri auðlindanýtingu okkar, hvort sem við tölum þá um land innan marka bújarða eða almennt hafsvæði eða hverjar aðrar auðlindir sem eru á þessu landi.