Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, þetta með að vaxa út úr hallanum eins og við höfum gert — við erum með ósjálfbæra stöðu, við vitum það. Það þýðir sannarlega að við gætum þurft að fresta því að staðan verði sjálfbær. Ég held að það liggi alveg fyrir. Ég sagði áðan að hagvöxturinn væri allur á uppleið, og kannski hraðar en við höfðum gert ráð fyrir, en ef eitthvað kemur upp á, á þeim árum sem stefnan gildir, sem verður til þess að við þurfum jafnvel að taka stefnuna upp aftur eða endurskoða hana, getum við þurft að horfast í augu við það að hún verði ósjálfbær. Hagvaxtarháð — sannarlega má segja að það sé stór hluti af því að stefnan gangi upp að hagvöxtur haldist hér góður og verði áfram góður til framtíðar. En það þýðir ekki að allt annað sé útilokað til að laga stöðu ríkissjóðs ef til þess kemur að þess þurfi.