Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:44]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er talað um að leiðarljós fjármálastefnunnar sé stöðvun skuldasöfnunar og ég var bara að benda á að ég sé þess ekki stað í stefnunni sjálfri með hvað hætti eigi að gera það. Ég er ekki viss um að ég sé endilega tilbúinn til þess að skera niður til þess að minnka velferð, ég er ekki þar. Viðreisn hefur m.a. bent á tækifæri til að auka tekjur með því að hækka auðlindagjöld og það má nefna fleiri hluti. Hér hafa verið nefndir bankaskattur og auðlegðarskattur og hvaðeina sem möguleikar til tekjuöflunar. En þetta þarf auðvitað að spila saman. Velferðin kostar pening og við þurfum að fjármagna hana með einhverjum hætti, þannig að ég verð bara þar.

Varðandi sveitarfélögin standa mörg þeirra frammi fyrir því núna að hafa ekki einu sinni fjárfest fyrir afskriftum. Þannig er það bara. Það þarf með einhverjum hætti að breyta því að fjárfestingarþörfin liggi í sveitarfélögunum. Það þarf að byggja leikskóla, þess er að krafist að sveitarfélögin veiti úrræði fyrir börn frá eins árs þegar fæðingarorlofi lýkur. Það er ekki lögbundið verkefni sveitarfélaganna að gera slíkt en sú krafa er á sveitarfélögunum. Sveitarfélögin sinna miklu meira en bara lögbundnum verkefnum. Það þarf auðvitað að skoða tekjumöguleika sveitarfélaganna. Hv. þingmaður nefndi gistináttaskattinn sem hefði komið mörgum sveitarfélögum til góða. Það er heldur ekki lögmál að skipting á milli tekjuskatts og útsvars sé alltaf sú sama. Það má alveg breyta því.