153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Á heimasíðu Stjórnarráðsins birtist í gær tilkynning frá fjármálaráðuneytinu þar sem segir: Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram tillögur að breytingum við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2023 í fjárlaganefnd Alþingis. Þarna er sagt frá því að lagðar séu til tillögur sem kalli fram 37 milljarða útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð. Í tilkynningunni er reyndar ekki tekið á því, að mér sýnist, að þessi þróun mála kalli fram 14 milljarða vaxtagreiðslur en þetta er ofan á 129 milljarða kostnaðarauka á milli ára þegar búið að taka tillit til einskiptis Covid-kostnaðar í fyrra í fjárlögum upp á 50 milljarða. Raunverulega sýnist mér því að hér sé verið að leggja til útgjaldaauka á milli ára upp á 180 milljarða. Þetta er án nokkurs vafa met í milljörðum talið í þróun útgjalda ríkissjóðs á milli ára. Maður taldi ólíklegt að nokkurn tímann yrði viðlíka ár og þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði hér allt fyrir alla árið 2007 með mikilli aukningu útgjalda á milli ára en þessi þróun er alveg örugglega að bæta mjög verulega í það.

Virðulegur forseti. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra lýst því yfir að ástandið á landamærunum sé ekki stjórnlaust þvert á skoðun hæstv. dómsmálaráðherra. Samt leggur fjármálaráðherra til í þessu að 5 milljörðum verði bætt við útlendingamál frá því að hæstv. ráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp í september. Það er einn heill almanaksmánuður á milli. Hvernig er hægt að lýsa þessu öðruvísi en sem stjórnlausu ástandi og núna í ríkisfjármálum? Öðruvísi mér áður brá.

Ég óska þess hér að forseti gerir okkur þingmönnum kleift að eiga orðastað við hæstv. ráðherra við 2. umr. fjárlaga vegna þessa því að þetta er slík grundvallarbreyting sem er að verða á fjárlögum ríkisins. (Forseti hringir.) Útgjaldaaukningin er alveg örugglega met í milljörðum talið í þróun mála á milli ára og þetta eru tillögur fjármála- og efnahagsráðherra sem hér um ræðir, ekki tillögur nefndarinnar. (Forseti hringir.) Það er því sjálfsagt mál að við þingmenn fáum tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra vegna þessa.