144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst aðeins um forgangsröðunina í fjárlögunum. Ég veit ekki hvort það skiptir miklu máli en það er þannig í fjárlögum að forgangsraðað er í þágu heilbrigðisþjónustu og velferðarmála. Það sést ágætlega á bls. 3 í frumvarpinu þar sem fram kemur að velferðarráðuneytið tekur til sín um 266,5 milljarða af fjárlögunum.

Næst þar á eftir kemur fjármála- og efnahagsráðuneytið með 85 milljarða, 266,5 og næsta ráðuneyti með 85 og það eru mest bætur. Það er auðvitað alveg skýrt og það þarf engar skoðanakannanir til að draga þetta fram en ég ætla ekki að segja fleira um það. Það getur vel verið að það sé fullt tilefni til að spyrja nánar út í svona forgangsröðun og hvernig menn vilja sjá það fyrir sér og í sjálfu sér ætla ég ekki að skipta mér af því hvort eða hvernig Píratar ætla að gera skoðanakönnun, en ég vildi draga athygli að þessu vegna þess að mér heyrðist að áherslan ætti að vera á að forgangsraða í þágu heilbrigðis- og velferðarmála og það er svo sannarlega gert.

Varðandi það að fella virðisaukaskattinn af með öllu á matvæli þá er í því sambandi það að athuga að nú þegar er umtalsverður hluti þess sem ella væri í virðisaukaskatti undanþegið, heilbrigðisþjónusta og ýmis önnur opinber þjónusta. Varðandi hvort það eigi að fjölga í flokki þeirra sem falla í undanþáguflokkinn þá geta menn haft ólíkar skoðanir á því en ég tel að það eigi ekki að gera. Sú útfærsla sem ég hef mælt fyrir er sú sem ég tel að sé skynsamleg. Hún er sú að vera með tvö þrep og setja þær vörur sem þar falla í neðra þrepið sem við höfum mest talað hér um, þar með talið matvælin.