148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[14:12]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég býð hæstv. utanríkismálaráðherra og settan dómsmálaráðherra í ákveðnum málum velkominn í salinn og þakka honum fyrir að hafa orðið við kalli mínu um að vera viðstaddur og hlýða á spurningu mína.

Það var tillaga um það í októberbyrjun að hæstv. utanríkisráðherra færi með mál er varða skipun í embætti héraðsdómara, sem er óneitanlega nauðsynlegt vegna Landsréttar sem tekur til starfa 1. janúar. Nú er það svo að fjölmargir héraðsdómarar hafa verið skipaðir dómarar við Landsrétt. Því þurfti að auglýsa lausar stöður í þeim héraðsdómum þar sem þeir tilteknu dómarar störfuðu áður og starfa núna.

Því miður, og kannski í framhaldi af þeirri umræðu sem var áðan um allt er viðkemur þessum ágæta Landsrétti, er þetta svolítið gert á síðustu stundu. Við erum hér 16. desember, jólin á næsta leyti, að horfa á það að 1. janúar tekur til starfa Landsréttur með 15 nýjum dómurum. 1. janúar á að vera búið að skipa nýja héraðsdómara, fjölda þeirra. Einhverra hluta vegna var ekki farið í það að auglýsa þau störf í júní þegar þetta var ljóst heldur voru þau auglýst fyrst í september.

Í byrjun október kom í ljós að hæstv. dómsmálaráðherra er vanhæf til þess að hafa með þessa skipun héraðsdómara að gera (Dómsmrh.: Ég lýsti mig vanhæfa.) og var þá hæstv. utanríkisráðherra fenginn í það verkefni. Það var í byrjun október. 16. desember er enn þá ekkert að frétta.

Ég vil því spyrja ráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og þann ráðherra sem fer með þessa skipun héraðsdómara, hvernig fari með dómstólana okkar þar sem álagið er nú þegar umtalsvert. Hvernig fer með þá 1. janúar ef ekki verður hægt að skipa þann fjölda dómara, ég held að þeir séu 12, sem vantar við héraðsdóm?