155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[09:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég held að í því ástandi sem við búum við í íslensku samfélagi sé hægt að segja að hæstv. ráðherra beri ansi stóra ábyrgð og að mennta- og barnamál séu málaflokkur sem við þurfum að taka til mikillar umræðu hér í vetur. En mig langar að byrja á málefnum barna með fjölþættan vanda, eins og hæstv. ráðherra langaði að fara yfir hér áðan. Í dag er borið til grafar barn sem féll frá vegna ofbeldis annars barns. Þetta er auðvitað hryllingur og það að lesa blöð dag eftir dag og heyra af vopnaburði og átökum ungmenna er eitthvað sem við eigum ekki að sætta okkur við í íslensku samfélagi. Ég vænti þess að við séum með úrræði til að takast á við slík vandamál.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins yfir það hvernig hæstv. ráðherra, og reyndar aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, eru að beita sér í þessum málaflokki. Hvernig getum við betur stutt þau börn sem líður það illa að þau eru að beita ofbeldi og hvernig getum við varið önnur börn fyrir slíku?