155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[10:18]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Margt af því sem hún sagði var hárrétt. Ég ætla aðeins að fara yfir farsældarmálin. Innleiðing á svona stórum breytingum tekur tíma. Við erum fyrst núna að nálgast það að vera til að mynda búin að setja upp tengiliði og málastjóra úti í öllum sveitarfélögum og héruðum og úti í öllum kerfum. Við erum fyrst núna að nálgast það að geta farið að taka samtalið í hverjum og einum landshluta. Við erum að gera samninga við landshlutasamtökin þar sem allir aðilar eiga að koma að málum og vinna tímasettar áætlanir um árangur í sínum héruðum. Fyrirbyggjandi aðgerðir af þessu tagi og svona samtal tekur tíma.

Það sem við erum hins vegar byrjuð að sjá er að á einstaka svæðum er barnaverndarmálum að fækka af því að félagsþjónustan og skólinn eru að vinna saman. Við erum að sjá að menn eru að taka öðruvísi á skólaforðun þar sem er verið að stíga fyrr inn vegna samtals á milli kerfa. Það er hins vegar þannig að glærukynningin flotta, sem hv. þingmaður vitnaði til úr fjárfestingunni, gerði ekki ráð fyrir því að við færum að sjá árangur fyrr en eftir svona 6–8 ár frá því að lögin hefðu tekið gildi. Þetta er langtímaverkefni. En á sama tíma erum við í rosalegri innviðaskuld gagnvart þyngri úrræðum sem við erum ekki að ná að grípa núna. Það sem við þurfum að gera er að setja fjármagn í auknum mæli inn í slíkar aðgerðir. Allt það sem er í fjárlagafrumvarpinu hér getum við gert hraðar ef við setjum aukinn slagkraft inn í það. Við erum hins vegar á þeim stað að það eru áskoranir í samfélaginu og það þarf að nýta hverja krónu vel. Ef við getum aukið fjármagn inn í þessi kerfi sem við erum með, stigið fastar inn gagnvart því — það er að gerast núna í ofbeldismálum, það er gert ráð fyrir aukningu þar. Ég kalla eftir því að menn fari í auknum mæli að horfa á börn sem fjárfestingu. Nú erum við komin með gögnin, með tölfræðina, til að geta gert það, til þess að geta varpað ljósi á það. Þau gögn voru ekki til. Ég hlakka til samstarfs við hv. þingmann og aðra í þessu efni.