155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[10:42]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þegar Kveikjum neistann var tekið upp í Lindaskóla sá menntasetrið sem sér um það verkefni sjálft um það. Það þarf enga einingu til þess, sú eining er þegar til, þ.e. Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar sem er undir fræðilegri stjórn prófessors Hermundar Sigmundssonar, prófessors í Þrándheimi í lífeðlisfræðilegri sálfræði. Sú hugmyndafræði sem hann er búinn að búa til byggir á rannsóknum þekktustu vísindamanna heims, áratugagömlum, Csikszentmihalyis, Ericssons og fleiri, varðandi læsi og uppeldi barna. Það þarf enga einingu til, sú eining er þegar til, höfum það algerlega á hreinu.

Þess vegna er spurningin þessi: Mun hæstv. menntamálaráðherra sjá til þess að þetta menntasetur fái fé til að kynna þessa hugmyndafræði, Kveikjum neistann, í öðrum skólum eða ekki? Og hversu háar fjárhæðir er verið að tala um? Það getur vel verið að önnur verkefni séu í gangi hingað og þangað um landið en ég er ekki að spyrja um þau. Ég er bara að spyrja um Kveikjum neistann, svo að það sé algerlega (Forseti hringir.) á hreinu. Það er algjörlega með ólíkindum að alveg frá því að ég kom til starfa í þessu húsi, (Forseti hringir.) hefur þessi málaflokkur, grunnskólar í landinu, verið algjört hneyksli í vestrænum heimi. Algjört hneyksli.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)