155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[10:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar hér að spyrja hæstv. ráðherra barnamála með dálítið opnum hætti. Umboðsmaður barna hefur oft miklar áhyggjur og birtir samantekt árlega um þróun biðlista hinnar ýmsu þjónustu sem snýr að börnum. Sumt af þessu er auðvitað undir hatti t.d. heilbrigðisráðherra, það er svona víða í kerfinu, en ég gef mér að hæstv. barnamálaráðherra reyni að hafa auga með þessu með heildstæðum hætti. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig honum þyki til hafa tekist heilt yfir undanfarin ár hvað þetta varðar, þ.e. að stytta biðlista fyrir börn sem þarfnast hinnar ýmsu þjónustu, hvort sem það eru greiningar eða viðbrögð eða meðhöndlun við greiningum sem þegar eru komnar fram. Hvernig hefur tekist til undanfarin ár að mati hæstv. ráðherra?